Borgarleikhúsið og Þjóðleikhúsið hafa kynnt dagskrá sína fyrir leikárið 2011-2012. Miðasala er hafin á báðum stöðum og eins og tíðkast hefur síðustu ár stendur til boða að kaupa fjögurra leiksýninga kort á betri kjörum en ef stakir miðar væru keyptir. Verðið í ár er 11.900 krónur bæði hjá Borgarleikhúsinu og Þjóðleikhúsinu. Afslátturinn nemur 33% hjá Þjóðleikhúsinu miðað við almennt miðaverð og 37% hjá Borgarleikhúsinu. Þá geta ungmenni, yngri en 25 ára, fengið leikhúskortin á enn betri kjörum eða á 6.500 krónur hjá Borgarleikhúsinu og 9.900 krónur hjá Þjóðleikhúsinu. Einnig stendur til boða að kaupa frumsýningarkort hjá Þjóðleikhúsinu á 20.000 krónur sem tryggir forgang og fast sæti á frumsýningar á Stóra sviði Þjóðleikhússins á leikárinu.

Síminn rauðglóandi

Sigurlaug Þorsteinsdóttir, kynningarstjóri Þjóðleikhússins, segir miðasölu hafa farið rosalega vel af stað eftir að leikárið var kynnt. Segir hún símann hafa verið rauðglóandi og ekki hafi tekist að anna öllum eftirspurnum símleiðis. „Leikhúskortin eru það sem er aðal núna. Það er eitthvað af fólki að kaupa sér tvö kort til að geta séð allar sýningarnar,“ segir Sigurlaug. Vinsælustu sýninguna segir Sigurlaug vera Vesalingana sem verða sýndir eftir áramót. „Það mun kosta 5.100 krónur á Vesalingana þannig fólk er fá miðana á ótrúlega fínu verði með leikhúskorti og svo þrjár sýningar til.“

Aðspurð um sölu á frumsýningarkortum segir Sigurlaug eitthverja hreyfingu á þeim. „Þau eru bæði dýrari og ekki mikið af þeim í boði. Við höfum ekki selt þau í hundraðavís enda bara 500 sæti í salnum og ekki nema 200 frumsýningarkort í boði,“ segir Sigurlaug. Verð á leikhúskortum hækkaði um 1.000 krónur milli ára en það virðist ekki hafa dregið úr ásókninni.

Í skýjunum

Guðrún Stefánsdóttir, miðasölustjóri Borgarleikhússins, segir miðasölu hafa gengið mjög vel. „Þetta er búið að vera algjör sprengja hjá okkur, við eigum von á rosa fínum vetri,“ segir Guðrún. Aðspurð á hvaða sýningar ásóknin er mest segir Guðrún mikið pantað á sýningarnar Kirsuberjagarðurinn, Fanney og Alexander og Eldhaf. „Ég er alveg í skýjunum með hvað þetta hefur farið vel á stað. Það eru mjög margir að kaupa tvöfaldan skammta af áskriftarkortum því þeir geta ekki valið á milli. Það verða ansi margir aðilar oft hérna hjá okkur í vetur,“ segir Guðrún.

Verðið á áskriftarkortunum hækkaði um 1.000 krónur frá fyrra ári en Guðrún segir ásóknina ekki minni. „Verkin virðast standa það vel fyrir sínu að fólk er ekki að láta þetta trufla sig.