Verðtrygginganefnd skoðaði samkvæmt skýrslu sinni fjölda leiða til þess að draga úr vægi verðtrygginginar á íslenskum lánamarkaði. Þar má nefna að bæði var skoðað að banna verðtryggingu fjármálagerninga alfarið sem og að banna verðtryggingu húsnæðislána. Ennfremur var skoðaður sá möguleiki að banna verðtryggingu jafngreiðslulána. Þá var ræddur sá möguleiki að verðbætur yrðu staðgreiddar, sem myndi breyta greiðslubyrði þannig að hún nálgaðist greiðslubyrði lána með breytilega vexti, auk þess sem reifaður var sá kostur sem Framsóknarflokkurinn hefur lagt til að setja þak á verðtryggingu sem nemur stýrivöxtum og vikmörkum þeirra.

Rætt var hvort hægt væri að taka upp aðra viðmiðunarvísitölu en neysluverðsvísitölu auk þess hin svokallaða síleska leið var könnuð, þ.a. að í raun búa til nýjan gjaldmiðil (verðtryggðar krónur). Enn einn möguleikinn sem ræddur var er greiðsla vaxtabóta til aðeins þeirra sem hafa tekið óverðtryggð lán.

Upptaka nýs gjaldmiðils var rædd auk þess að breyta ákvæðum laga um verðtryggða 3,5% ávöxtun lífeyrissjóða. Þá var talað um að auka framboð annarra lánaforma (sem síðan er mælt með) auk þess að bæta neytendavernd, afnema kvaðir af verðtryggingu og ná valdi á verðbólgu. Síðasti kosturinn sem ræddur var er óbreytt ástand.