Launadeila lækna og samninganefndar fjármálaráðherra stendur enn yfir. Ekki sér í land í deilunni en eins og kunnugt er gripu læknar til þess ráðs fyrir skemmstu að hefja verkfall til að þrýsta á hið opinbera að verða við kröfum þeirra um 30-36% hækkun grunnlauna.

Algengt er að læknar drýgi tekjur sínar með því að vinna á einkastofum eða jafnvel erlendis, utan þess að vinna á Landspítalanum eða öðrum heilbrigðisstofnunum á vegum hins opinbera. Samkvæmt upplýsingum frá LÍ eru 200 læknar sem hafa leyfi til að starfa sjálfstætt fyrir utan að vinna fyrir hið opinbera. Þar fyrir utan vinna 140 læknar alfarið sjálfstætt. Samkvæmt upplýsingum frá Landspítala tíðkast það helst meðal skurðlækna, svæfingarlækna og lyflækna.

Heildarlaun þessara lækna frá Landspítala segja þá einungis hálfa söguna en einstaka læknar eru fyrir vikið með talsvert hærri tekjur en heildarlaun frá Landspítala ein og sér gefa til kynna.

Þorbjörn Jónsson, forstjóri LÍ, segir að utan þessa hafi um 20% íslenskra lækna hluta af sínum tekjum erlendis frá samkvæmt könnun sem félagið gerði meðal félagsmanna árið 2012. Margir horfi hýru auga til þessa valkosts.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .