Tuttugu nýir milljarðamæringar undir 45 ára aldri hafa bæst í hóp 400 auðugustu einstaklinga í Bandaríkjanna. Bandaríska tímaritið Forbes tekur listann saman á hverju ári. Ljóst er að skráning Facebook á markað gerði marga þá sem komu að stofnun fyrirtækins að milljarðamæringum.

Sá yngsti á nýjasta lista Forbes er Dustin Moskovitz, sem stofnaði samfélagsmiðilinn Facebook ásamt Mark Zuckerberg. Hann er 29 ára en auður hans er metinn á 5,3 milljarða dala, jafnvirði rúmra 640 milljarða íslenskra króna. Nafn hans komst fyrst á blað hjá Forbes árið 2010. Milljarðamæringurinn ungi sagði upp störfum hjá Facebook árið 2008 en á enn um 5% hlut í fyrirtækinu.

Mark Zuckerg er svo næstyngsti milljarðamæringur Bandaríkjanna, sem vermir 20. sæti yfir ríkustu einstaklinga landsins. Hann er reyndar aðeins átta dögum eldri en Moskovitz en talsvert auðugri, samkvæmt útreikningum Forbes, sem metur auð hans á 19 milljarða dala, jafnvirði 2.300 milljarða íslenskra króna. Það jafngildir rúmri einni vergri landsframleiðslu Íslands, sem nam tæpum 1.700 milljörðum króna á síðasta ári.

Hér má sjá lista yfir yngstu milljarðamæringana í Bandaríkjunum. Listinn byrjar á þeim yngsta og endar á þeim elsta - sem er undir 45 ára aldri.

  1. Dustin Moskovitz - 29 ára - stofnandi Facebook
  2. Mark Zuckerberg - 29 ára - stofnandi Facebook
  3. Scott Duncan - 30 ára - erfingi orkufyrirtækisins Enterprise Products Partners
  4. Sean Parker - 33 ára - meðstofnandi Napster og fyrrv. stjórnarformaður Facebook
  5. Robert Pera - 35 ára - stofnaði Ubiquiti Networks
  6. Jack Dorsey - 36 ára - ein stofnenda Twitter
  7. Nick Woodman - 38 ára - stofnandi og forstjóri GoPro
  8. Chase Coleman - 38 ára - stofnandi og forstjóri vogunarsjóðsins Tiger Global
  9. John Arnold - 39 ára - fyrrv. stjórnandi hjá Enron
  10. Sergey Brin - 40 ára - annar stofnenda Google