Við efnahagshrunið 2008 minnkuðu mörg fyrirtæki og einstaklingar tryggingavernd sína. Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár, segir þetta hafa verið varhugaverða þróun og margir hafi verið vantryggðir.

„Margir minnkuðu við sig verndina og voru nauðbeygðir til þess. Kakan minnkaði talsvert, fyrirtækjum og einstaklingum fækkaði í tryggingaverndinni og nokkrar greinar skruppu verulega saman,“ segir Hermann. Þetta hafi gert það að verkum að iðgjaldamassinn minnkaði.

„Einstaklingar tóku margir út kaskótryggingar bíla og líf- og sjúkdómatryggingar,“ segir Hermann og telur að markaðurinn hafi verið dálítið varhugaverður hvað þetta varðaði. „Núna er þetta að færast til betri vegar,“ segir Hermann og bendir á að fólk sé duglegt að afla sér upplýsinga og leita til sérfræðinga eftir ráðgjöf. Það hefur skilað sér í því að vöxtur hefur verið í líf- og sjúkdómatryggingum hjá Sjóvá.

Nánar er spjallað við Hermann í sérblaði Viðskiptablaðsins um lífeyri og tryggingar sem kom út á fimmtudag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .