Bandaríski skotvopnaframleiðandinn Smith & Wesson Holding hagnaðist um 78,7 milljónir dala, jafnvirði 9,7 milljarða íslenskra króna, í fyrra. Þetta er talsvert yfir væntingum og fjórfalt meira en árið á undan. Afkoman skýrist af því að skotvopnasala fyrirtækisins jókst um 42% á milli ára. Tekjur námu 587,5 milljónum dala sem er tvöfalt meira en árið 2011.

Bandaríska dagblaðið The Wall Street Journal segir í umfjöllun sinni Bandaríkjamenn hafa haskað sér út í búð á fjórða ársfjórðungi í fyrra til að festa kaup á byssu af ótta við að byssulöggjöfin vestra verði hert í kjölfar skotárásarinnar í Newtown.

Blaðið segir að eftirspurnin hafi verið slík að fyrirtækið hafi ekki náð að anna henni þrátt fyrir að hafa aukið framleiðsluna.

Gert er ráð fyrir því að sala eigi enn eftir að aukast á byssum og tekjur nema 605 milljónum dala á þessu ári.