Frambjóðendur í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins til Alþingiskosninga í vor hafa ekki allir staðið sig sem skyldi þegar kemur að því að skila yfirlýsingu eða uppgjöri um kostnað framboðsins til Ríkisendurskoðunar . Samkvæmt lögum eiga frambjóðendur að skila slíkum upplýsingum til embættisins ekki síðar en þremur mánuðum frá kjördegi. Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og Suðvesturkjördæmi voru haldin í nóvember í fyrra og fresturinn því runninn út.

Samkvæmt nýjustu upplýsingum á vefsíðu Ríkisendurskoðunar hafa sjö af nítján frambjóðendum í prófkjörinu í Reykjavík ekki skilað uppgjöri eða yfirlýsingu til Ríkisendurskoðunar. Yfirlýsing nægir ef kostnaður er undir 400.000 krónum, en uppgjöri þarf að skila ef kostnaður er meiri.

Þingmenn ekki búnir að skila

Þau Birgir Ármannson, Brynjar Níelsson, Elí Úlfasson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Hafsteinn Númason og Þórhalla Arnardóttir hafa ekki skilað inn fjárhagsupplýsingum til Ríkisendurskoðunar, en í þessum hópi eru tveir þingmenn flokksins.

Í Suðvesturkjördæmi eiga sex af sextán frambjóðendum eftir að skila yfirlýsingu eða uppgjöri til Ríkisendurskoðunar. Það eru þau Elín Hirst, Friðjón R. Friðjónsson, Kjartan Örn Sigurðsson, Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir, Sveinn Halldórsson og Sævar Már Gústavsson.

Frestur til að skila inn upplýsingum vegna prófkjöra í Suður- og Norðausturkjördæmum er ekki runninn út. Ekkert þeirra fimmtán sem var í framboði í prófkjörinu í Suðurkjördæmi hefur skilað inn upplýsingum til Ríkisendurskoðunar, en tæpir tveir mánuðir eru þó enn til stefnu. Einn hefur skilað inn upplýsingum vegna prófkjörsins í Norðausturkjördæmi, Bergur Þorri Benjamínsson, en þar er einnig nægur tími til stefnu.

Skipað var á lista í Norðvesturkjördæmi og er því ekki að vænta fjárhagsupplýsinga úr því kjördæmi.