Tvö hundruð manns frá um 100 rekstraraðilum sóttu kynningarfund Isavia á forvali vegna aðstöðu til verslunar- og veitingareksturs í Flugstöð Leifs Eirikssonar í Hörpu í gær. Samningstími rekstraraðila í brottfarasal flugstöðvarinnar rennur út í árslok. Samhliða vali á rekstraraðilum verður brottfararsal flugstöðvarinnar breytt og þjónusta endurskipulögð. Áætlað er að ljúka henni vorið 2015.

Í tilkynningu frá Isavia er bent á að samsetning farþega á Keflavíkurflugvelli er að breytast með mikilli aukningu erlendra farþega. Íslendingar hafi verið helstu viðskiptavinir verslana og þjónustufyrirtækja. Með fjölgun erlendra gesta hafi hlutfallið breyst. Erlendir farþegar voru 68% af heildarfjölda árið 2013 og er áætlað að hlutfallið aukist í um 75% árið 2020. Breytingin mun hafa mikil áhrif á tilhögun og vöruframboð í verslunum og veitingasölu.

Isavia leitaði aðstoðar breska ráðgjafarfyrirtækisins Concession Planning sem er eitt virtasta fyrirtækið á sviði reksturs og skipulagningar smásölu á flugvöllum. Sömuleiðis hefur verið leitað ráða hjá breska hönnunarfyrirtækinu Portland um hönnun á útliti og þema nýja verslunarsvæðisins.