Neysla á hvern erlendan ferðamann hér hefur dregist saman um 44% í evrum talið síðastliðin níu ár. Á sama tíma hefur ferðamönnum fjölgað um 67%. Átak til að fjölga ferðamönnum hefur skilað því að hingað koma sparsamir túrista sem skilja lítið eftir. Því er mikilvægt að laða hingað til lands efnaðri erlenda ferðamenn sem eyði 65 þúsund krónum á dag í stað 30 þúsund króna á viku.

Ferðamenn
Ferðamenn

Í Markaðspunktum Arion banka er bent á að varhugavert sé að leggja að jöfnu magn og gæði. Síðustu ár hafa tekjur á hvern ferðamann minnkað umtalsvert í evrum talið. Eðlilegra væri að leggja fremur áherslu á að laða til landsins fjölbreyttari flóru ferðamanna sem myndu skila meiri gjaldeyristekjum til landsins en hinn almenni ferðamaður.

Deildin segir fátt hér hvetja efnaða erlenda ferðamenn til að taka upp veskið þótt Harpa geti skilað því.

„Ef gert er ráð fyrir því að hingað til lands kæmu í auknum mæli ferðamenn sem eyddu meira en hinn skilgreindi meðalferðamaður (65 þús. á dag í stað 30 þús., m.v. vikudvöl) þyrfti „eingöngu“ um 50% aukningu í fjölda ferðamanna til landsins (úr 490 þúsund í 720 þúsund) til að skapa sömu tekjur og myndu skapast við 100% aukningu þeirra ferðamanna sem í dag sækja landið heim,“ segir í Markaðspunktunum og bent á að sú mikla fjölgun sem varð meðal erlendra ferðamanna á síðustu árum hafi að mestu stafað af auknu streymi „sparsamari túrista“ sem hafa nýtt sér hagstætt gengi krónunnnar.