Geysir Green Energy (GGE) seldi 80% hlut af rekstri fyrirtækisins í Kína og um 75% hlut í jarðhitafyrirtæki á Filippseyjum í skipulögðu söluferli og fengu 30 aðilar upplýsingar um félögin í söluferlinu. GEE átti frumkvæðið að því að selja eignarhlutina í fyrravor.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu Jóhannesar Hauksson, stjórnarformanns GGE, vegna fjölmiðlaumræðu um sölu á eignarhlutum í félögunum Enex-Kína og EnVent Holding.

Í yfirlýsingunni segir orðrétt:

„Vorið 2011 hafði GGE frumkvæði að því að setja eignarhluti félagsins í Enex-Kína og Envent Holding í skipulagt söluferli. Söluferlið byggði á samkomulagi milli GGE og REI frá 23. mars 2010 um að aðilar skuldbindi sig gagnvart hvor öðrum að taka þátt í söluferli félaganna þegar og ef annar aðila krefst þess. Áður hafði verið reynt að afla hlutafjár til þessara verkefna með aðstoð fjárfestingabanka í Asíu án árangurs.

GGE hefur í nokkurn tíma unnið að því að selja eignir og var ákvörðunin um að setja hluti félagins í Enex-Kína og Envent Holding í söluferli því hluti af aðgerðaráætlun félagsins sem unnið hefur verið eftir í nokkurn tíma. Jafnframt var ljóst sumarið 2011 að setja þyrfti umtalsvert fjármagn inn í Enex-Kína til þess að félagið gæti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart samstarfsaðila sínum. Það var því mat stjórnenda GGE að rétt væri að aðrir eigendur kæmu að félaginu til þess að tryggja að þeirri farsælu uppbyggingu sem unnið hefur verið að á sviði jarðvarmaverkefna í Kína verði haldið áfram.

Í söluferlinu fengu rúmlega 30 jafnt innlendir sem erlendir aðilar senda fjárfestakynningu á félögunum. Þáðu nokkrir aðilar, þ.m.t. íslenskir lífeyrissjóðir, nánari gögn um félögin og sátu auk þess fundi með forstjóra GGE þar sem farið var yfir starfsemi félaganna og söluferlið.Í kjölfar ofangreindra kynningarfunda bárust tvö tilboð í eignir GGE og var ákveðið að hefja viðræður við þann aðila sem átti hæsta tilboðið. Þeim viðræðum lauk með sölu Enex-Kína og Envent-Holding til Orku Energy haustið 2011. Það er mat GGE að vel hafi verið staðið að sölunni og að ásættanlegt verð hafi fengist fyrir umræddar eignir.“