*

fimmtudagur, 18. júlí 2019
Innlent 31. janúar 2018 13:13

„Margir varir um sig eftir Toyota-dóminn“

Endurskoðandi hjá PwC kallar eftir reglugerð um arðgreiðslur og eigið fé fyrirtækja vegna harðra viðurlaga í ESB tilskipun.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Atli Þór Jóhannsson endurskoðandi hjá PwC kallar eftir reglugerðum um hve mikið af eigin fé fyrirtækja megi ekki greiða út í arð heldur verði að vera bundið að því er Morgunblaðið segir frá.

Segir Atli Þór í grein í blaði Félags löggildra endurskoðenda gerð reglugerðar um málið vera nauðsynlega í kjölfar nýrrar reglugerðar Evrópusambandsins sem tók gildi fyrir tveimur árum í lögum um ársreikninga.

Segir hann stöðuna nú leiða til þess að stjórnendur bindi meira heldur en minna til að gæta ítrustu varúðar því nú séu reglurnar óskýrar. Reglurnar sem settar voru í kjölfar fjármálahrunsins eiga að sporna við því að félög geti greitt út arð án þess að hafa innleyst hagnað, t.d. vegna þróunarkostnaðar sem bókfærður er sem eigin fé án þess að vitað sé hvort hann skili tekjum með tilbúinni vöru.

„Um þessar mundir eru margir varir um sig eftir Toyota-dóminn. Þar töldu flestir að farið væri eftir lögum en sjö árum seinna kom annað í ljós,“ segir Atli Þór, og vísar þar í dóm Hæstaréttar um að vaxtakostnaður vegna öfugs samruna væri ekki frádráttarbær frá skatti.

„Hve óljósar reglurnar eru gæti haft þau áhrif - í versta falli - að greiddur er arður með ólöglegum hætti og eru hörð viðurlög við því.“

Upplýsingaskylda um almannahagsmuni t.d. umhverfis-, félags-, mannréttindi o.s.frv.

Atli Þór bendir einnig á í grein sinni að skýra þurfi einnig skyldu um upplýsingagjöf um hluti er varði almannahag, til dæmis sem varði umhverfis- félags- og starfsmannamál, mannréttindastefnu og hvernig spornað sé við spillingar- og mútumálum. 

„Hins vegar er óljóst í íslenskum lögum hvort aukin birting ófjárhagslegra gagna eigi einungis við stærri fyrirtæki er varða almannahag eða einnig þau minni,“ segir Atli Þór sem segir að skera verði úr um þessi mál. „Ófjárhagsleg upplýsingagjöf krefst mikillar yfirlegu og vinnu. Þetta bitnar einna helst á minni einingum, eins og t.d. minni lífeyrissjóðum.“

Hann bendir á að í minnisblaði frá Reikningsskilaráði kom fram að ósamræmi sé á milli þessarar ESB tilskipunar og ársreikningalaga. Ársreikningaskrá segir hins vegar að reglurnar eigi einungis við móðurfélög stórra samstæða og einingar tengdar almannahagsmunum.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is