„Það eru þessir mánuðir, júní, júlí og ágúst sem eru vinsælastir," segir Ástbjörn Egilsson, kirkjuhaldari í Dómkirkjunni um brúðkaup í Dómkirkjunni í sumar.

Kirkjan er bókuð allar helgar það sem eftir lifir sumars og suma laugardagana eru upp í fjögur til fimm brúðkaup sama daginn: „Ég held að metið hafi verið sex brúðkaup einn daginn, það var árið 2007, nánar tiltekið 07.07.2007. Síðan eru það dagar eins og 7. september í ár sem eru vinsælir, þ.e. 7.9.2013, þá eru fimm brúðkaup. Það kemst ekki meira fyrir þann daginn en við höfum alltaf einn og hálfan tíma á milli brúðkaupa. Það voru fjórir til fimm sem vildu þennan dag líka en urðu frá að hverfa," segir Ástbjörn.

Hann segir fólk bóka kirkjuna fyrir brúðkaup með ágætum fyrirvara: „Það eru nokkrir búnir að hringja út af 2014 og einn mjög bjartsýnn búinn að bóka brúðkaup sumarið 2015. Eins gott að hann haldi vel utan um sitt," segir Ástbjörn.