Töluverður áhugi virðist vera á bresku matvörukeðjunni Iceland Foods en Financial Times greinir frá því í dag að fjölmargir keppinauta Iceland á breskum matvörumarkaði séu áhugasamir um að kaupa félagið sem skilanefnd Landsbankans vill selja. Skilanefndin er stæsti hluthafi félagsins með um 2/3 hlutafjár en skilanefnd Glitnis er einnig í hópi hluthafa.

Á meðal þeirra fyrirtækja sem nefnd eru til sögunnar eru Wm Morrison, Sainsbury's, Asda, Tesco og breska samvinnuhreyfingin sem m.a. á Somerfield. Hlutur Landsbankans í Iceland er metinn á 1,7-2 milljarða punda en fari svo að kaupendurnir berjist um fyrirtækið má hæglega gera ráð fyrir að kaupverðið gæti orðið enn hærra.