Stuttmynd um ævintýri tuskudýranna Flopalongs eru skrefinu nær því að verða að veruleika þar sem söfnun heppnaðist vel hjá Karolina Fund. Þröstur Bragason teiknimyndagerðarmaður vinnur að gerð þessarar myndar og vildi safna 5.000 evra á fjáröflunarsíðunni Karolina Fund. Söfnuninni lauk á miðnætti 4. janúar með þeim árangri að það söfnuðust 5.328 evrur að sögn Þrastar.

Þröstur segir að nú taki við skipulagning og undirbúningur fyrir framleiðslu á stuttmyndinni og að útbúa þær viðurkenningar fyrir þá sem lögðu verkefninu lið með framlögum. "Til gamans má geta að við buðum fólki að fá karakter skírðan í höfuðið á sér ef það legði fram 50 evrur eða meira og virðast nokkuð margir hafa nýtt sér það kostaboð," segir Þröstur. Hann segir jafnframt að í fljótu bragði sé meirihluti styrkjenda Íslendingar en þó sé nokkuð um Bandaríkjamenn líka.

Söguþráður Flopalongs er á þá lund að þetta er hópur dýra sem einu sinni var í einkadýragarði á eyju í eigu illmennisins Gergs. Sá er svo illur að hann vill sösla undir sig allar náttúruauðlindir sem hann getur og skilur eftir sig sviðna jörð. Fram kemur á söfnunarsíðu Flopalong að dýrin sem teiknimyndin á að fjalla um eru bæði ofurhetjur og í útrýmingarhættu. Það er Bandaríkjamaðurinn John Robert Greene sem skapaði Flopalongs. Komododrekinn Igbot sleppur úr prísundinni hjá Gerg. Hann kemst í tæri við dularfullan loftstein. Hann öðlast ofurkraft úr lofteininum sem hann deilir með hinum Flopalongunum og hjálpar hann þeim að sleppa líka.