Atvinnublöðin voru óvenju þykk í helgarblöðum bæði Morgunblaðsins og Fréttablaðsins um helgina miðað við það sem verið hefur undanfarið. Um er að ræða blöð sem einfaldlega kallast „atvinna“ þar sem fyrirtæki auglýsa eftir starfsfólki en þessi blöð hafa í mörg ár komið út með helgarblöðunum.

Bankasýsla ríkisins auglýsti eftir forstjóra en sem kunnugt er sagði Elín Jónsdóttir starfi sínu lausu í vikunni án þess þó að vera komin með ráðningu í annað starf. Í samtali við Viðskiptablaðið í vikunni sagði Elín ákvörðun sína vera persónulega og vildi lítið tjá sig um hvernig starfslokin báru að garði.

Fjármálaeftirlitið (FME) auglýsti tvær stöður lausar um helgina, annars vegar lögfræðing og hins vegar sérfræðing í lífeyrissjóðamálum og í báðum tilfellum er viðeigandi reynsla af fjármálamarkaði meðal hæfniskrafna. Reynsla af lífeyrissjóðamálum var einnig talin æskileg.

Seðlabankinn auglýsti enn eftir framkvæmdastjóra fjármálastöðugleika en áhugasamir geta hringt í Má Guðmundsson, seðlabankastjóra eða Arnór Sighvatsson, aðst.seðlabankastjóra, í síma 569 9600. Samkvæmt auglýsingum Seðlabankans veita þeir Már og Arnór einnig upplýsingar um stöðu framkvæmdastjóra greiðslukerfa sem einnig var auglýst um helgina.

Þá auglýsti tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa eftir fjármálastjóra þar sem fram kom að vinnutími getur verið óreglulegur.

En FME, Seðlabankinn og Harpa voru ekki einu ríkisstofnanirnar sem auglýstu eftir starfsmönnum því einnig var auglýst eftir framkvæmdastjóra Fjölmiðlanefndar . Fjölmiðlanefnd er það sem upphaflega átti að verða fjölmiðlastofa en meðal menntunar- og hæfniskrafna er að viðkomandi hafi sérþekkingu á sviði fjölmiðla og trausta þekkingu á stjórnsýslu.

Og enn auglýstu ríkisstofnanir eftir starfsmönnum því Landsbankinn auglýsti eftir tveimur sérfræðingum, annars vegar á verkefnastofu og hins vegar í fræðsludeild. Þá auglýsti Umhverfisstofnun eftir lögfræðing á sviði laga og stjórnsýslu.

Loks auglýsti embætti forseta Íslands eftir tveimur starfsmönnum á Bessastaði, þó ekki í stól forseta. Annars vegar auglýst eftir ráðsmanni eða konu sem er ætlað það hlutverk að sjá um húshald og hvers konar viðburði á Bessastöðum, leiðsögn fyrir gesti, skráningu gripa og fleira. Hins vegar var auglýst eftir starfsmanni við þjónustu, móttöku gesta, þrif, matseld og fleira.

Mikið um tæknistörf hjá einkaaðilum

Þó mun fleiri störf á vegum hins opinbera hafi verið auglýst um helgina þá voru líka fjölmörg einkafyrirtæki sem auglýstu eftir starfsmönnum. Microsoft á Íslandi auglýsti eftir viðskiptastjóra stærri fyrirtækja. Meðal hæfniskrafna er 5-10 ára reynsla í svipuðu eða sambærilegu starfi. Þá auglýsti BM Vallá eftir þróunarstjóra annars vegar og sölustjóra múrvöru hins vegar.

Borgun auglýsti eftir hugbúnaðarsérfræðingum (í fleirtölu) en í auglýsingu fyrirtækisins kemur fram að vegna aukinn verkefna þurfi að bæta við sérfræðingum í hugbúnaðarþróun.

Þá auglýsti Síminn eftir viðskiptastjóra í Reykjavík en sá ber ábyrgð á viðskiptum við stóra viðskiptavini Símans á fyrirtækjamarkaði, kynningum, tilboðs- og markaðsgerð, ráðgjöf og fl. Síminn auglýsti einnig eftir þjónustufulltrúa í tæknilegri aðstoð.

Lyfjarisinn Actavis auglýsti fjórar stöður lausar um helgina. Þannig er Actavis að leita sér að sérfræðing í gjaldeyrismiðlun og áhættustýringu, kvörðunarstjóra, verkefnastjóra í skráningaferladeild og starfsmanni í töfludeild. Medís, dótturfélag Actavis Group, nýtti tækifærið og auglýsti eftir starfsmanni í bókhaldi samhliða auglýsingum Actavis.

Skýrr auglýsti einnig fjórar stöður lausar, verslunarstjóra hjá EJS, sérfæðing í Microsoft, sölusérfræðing á miðlægum lausnum og söluráðgjafa úthringiverkefna.

Alcoa Fjarðarál auglýsti tvær stöður lausar, annars vegar eftir verkfræðing í álframleiðslu og hins vegar eftir vélfræðing í málmvinnslu. Í auglýsingu álversins eru konur jafnt sem karla hvattar til að sækja um störfin.

Íslandsbanki auglýsti eftir framkvæmdastjóra fjármálasviðs bankans en sá mun heyra beint  undir bankastjóra, bera ábyrgð á fjármálastjórn bankans og sitja í framkvæmastjórn.

Radisson Blu Hótel Saga auglýsti fjölmörg störf laus um helgina, þá helst á veitingasviði en einnig í gestamóttöku.

Noregur kallar

Þá voru nokkur störf auglýst erlendis, þá helst í Noregi. Securitas Direct auglýsti eftir „ævintýragjörnu fólki“ á aldrinum 18-26 ára í sölustörf í Noregi. Um er að ræða sölustörf fyrir öryggiskerfi á vegum fyrirtækisins.

Þá auglýsti norska ráðgjafafyrirtækið Efla AS eftir byggingaverkfræðingum og/eða tæknifræðingum til starfa við byggingastjórnun í Noregi og einnig eftir burðaþolsverkfræðingi til starfa í Noregi við ráðgjöf tengda háspennulínum og tengivirkjunum.

Þá auglýsti arabíski flugrisinn Emirates eftir flugliðum  en félagið hefur í mörg ár leitað eftir flugliðum frá Evópu og þykir mjög spennandi að starfa hjá þessum stóra og rótgróna flugfélagi, sem er meðal flottustu flugfélögum heims. Áhugasamir geta mætt á Hótel Natura (áður Hótel Loftleiðir) kl. 9 stundvíslega þann 15. ágúst nk.

Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru úr atvinnuauglýsingum helgarinnar. Fyrir utan þau störf sem talin eru upp hér að ofan mátti finna ýmiss störf á fjölmörgum sviðum, bæði hér á landi og erlendis.