Klukkan eitt höfðu rúmlega 13.300 manns skrifað undir á síðunni Þjóðareign.is, þar sem undirskriftum er safnað til að hvetja forseta Íslands til að samþykkja ekki stjórnarfrumvarpið sem lagt hefur verið fram á Alþingi um úthlutun makrílkvóta, heldur vísa því í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Aðstandendur undirskriftasöfnuninnar eru Agnar K. Þorsteinsson, Bolli Héðinsson, Elín Björg Ragnarsdóttir, Guðrún Pétursdóttir, Henný Hinz, Jón Sigurðsson, Þorkell Helgason og Jón Steinsson hagfræðingur.

Jón Steinsson segir í samtali við Fréttablaðið að til þess að bæta lífskjör á Íslandi er lykilatriði að þjóðin njóti arðsins af sameiginlegum auðlindum hennar. Hann segist hafa trú á því að ef nægilega margir skrifa undir muni forsetinn taka það mjög alvarlega. Forsetinn hefur sagt að mikilvægar breytingar á fyrirkomulagi úthlutunar á sjávarauðlindinni geti verið mál sem þjóðin eigi að fá tækifæri til að samþykkja eða synja beint. Jón segir að hér sé um grundvallarbreytingu að ræða. Í fyrsta skipti sé verið að úthluta veiðiheimildum með óafturkræfum hætti til lengri tíma en eins árs. Slíkt sé ótækt á meðan þjóðin er ekki að fá fullt gjald fyrir afnot af auðlindinni.

Í tilkynningu segja aðstandendur undirskriftasöfnunarinnar að frumvarpið, sem felur í sér úthlutun makrílkvóta til útgerðarmanna til sex ára hið skemmsta og að veiðigjöld verði ákveðin til þriggja ára, feli í sér grundvallarbreytingu á tilhögun fiskveiðistjórnunarkerfisins. Verði það að lögum sé útgerðinni í fyrsta sinn veitt óafturkallanlegt forræði yfir aflaheimildum til lengri tíma en eins árs. Ennfremur geti Alþingi ekki í reynd afturkallað þá ráðstöfun. Í tilkynningunni segir jafnframt að lagasetning af þessu tagi komi í veg fyrir að unnt sé að kveða á um skilyrðislaust eignarhald þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni með ákvæði í stjórnarskrá sem jafnframt tryggi að þjóðin njóti fulls gjalds af afnotum á auðlindinni.

Meðal þekktra einstaklinga sem hafa deilt undirskriftasöfnuninni á Facebook-síðu sinni og hvatt aðra til að skrifa undir eru Birgitta Jónsdóttir þingmaður og Illugi Jökulsson rithöfundur.