„Fjölmargir vissu um þessa lánveitingu til Gerland og hver var eigandi þessa félags. Það voru vel á annan tug starfsmanna Kaupþings hér og í Lúxemborg fyrir utan ráðgjafa. Leyndin var ekki meiri en það,“ segir lögmaður Ólafs Ólafssonar, við fyrirtöku í héraðsdómi í máli sérstaks saksóknara í Al Thani-málinu gegn þeim Sigurði Einarssyni, fyrrverandi stjórnarformanni Kaupþings, Magnúsi Guðmundssyni, fyrrverandi bankastjóra Kaupþings í Lúxemborg, Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, og Ólafi, sem átti félagið Gerland.

Ákærðu krefjast frávísunar málsins.

Lögmaður Ólafs sagði engan fót fyrir því í gögnum málsins sem varða kaup fjárfestisins Al Thani á 5% hlut í Kaupþingi fyrir 25 milljarða króna örfáum dögum áður en bankinn fór í þrot að Ólafur hafi átt hlutdeild í viðskiptunum, hvað þá að hagnast á þeim. Greint var frá því á sínum tíma að Ólafur hafi átt milligöngu um viðskipti Al Thani.

Þá sagði hann það ekki ná nokkurri átt hversu langt ákæruvaldið reyni að seilast í ákæru sinni og krafðist þess að málinu verði vísað frá frá dómi.

Sigurður Einarsson sagðist ekkert vita um Gerland-lánið

Fullyrðing lögmanns Ólafs er þvert á það sem Sigurður Einarsson hefur haldið fram. Fyrir tæpum mánuði greindi Viðskiptablaðið frá því mati Sigurðar að hann hafi aldrei haft „umboð til þess að taka ákvörðun í einstökum viðskiptum bankans þar með talið lánveitingum til einstakra viðskiptavina umfram það umboð sem hann hafði sem formaður lánanefndar stjórnar.“

Hann sagðist hafa fylgst með viðskiptum Al Thani, sem keypti hlutabréf í Kaupþingi með láni frá bankanum sjálfum, „en ekki velt fyrir sér nánari útfærslu á þeim“. Hann hafi verið fylgjandi sölu hlutabréfanna og því að Kaupþing fjármagnaði kaupin. Hann hafi hins vegar ekki vitað um félagið Gerland, sem var í eigu Ólafs Ólafssonar, en félagið tók lán fyrir helmingi viðskiptanna.

Sigurður sagði lánveitingin til Gerlands hafi aldrei komið fyrir lánanefnd Kaupþings, þar sem Sigurður var formaður. Hann segir óljóst hvers vegna lánveitingin hafi ekki verið lögð fyrir lánanefndina, en sennilega hafi þeir starfsmenn sem leggja áttu lánsbeiðnina fyrir nefndina gert mistök.