Margrét S. Björnsdóttir er nýr formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar og tekur við af Rannveigu Guðmundsdóttur.

Kosið var á milli Margrétar og Ara Skúlasonar á landsfundi Samfylkingarinnar sem stendur yfir í Smáranum í Kópavogi. Margrét hlaut 53,1% atkvæða og Ari Skúlason 46,5%.

Helena Karlsdóttir var kjörin ritari og Magnús Norðdahl var kjörinn gjaldkeri.

Margrét Sverrisdóttir hlaut flest atkvæði í kjöri sem aðalfulltrúi í framkvæmdastjórn. Kosið var milli 25 frambjóðenda í 6 sæti aðalfulltrúa. Þá voru kjörnir sex varafultrúar.  Beita þurfti reglum um kynjakvóta til að flytja einn karlmann upp í aðalstjórn. Konur röðuðu sér í fjögur efstu sætin.

Aðalfulltrúar eru auk Margrétar, þau Ragnheiður Hergeirsdóttir, Kristín Sævarsdóttir, Íris Björg Kristjánsdóttir, Bergvin Oddsson og Helgi Pétursson.

Varafulltrúar eru: Guðrún Helgadóttir, Ásgeir Beinteinsson, Eysteinn Eyjólfsson, Guðrún Erla Geirsdóttir, Hörður J. Oddfríðarson og Guðrún Jóna Jónsdóttir.

Leiðrétt: Í fyrirsögn var áðan ranglega sagt að Margrét S. Björnsdóttir hefði verið kjörin framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar. Það er ekki rétt heldur var hún kjörin formaður framkvæmdastjórnar eins og fram kom í fréttinni sjálfri. Þetta hefur nú verið leiðrétt.