*

mánudagur, 17. júní 2019
Innlent 18. mars 2019 09:24

Margrét gagnrýnir verkalýðsforystuna

Margrét Sanders, fráfarandi formaður SVÞ, notaði orð verkalýðsforingja til að gagnrýna aðgerðir núverandi forystu.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Fráfarandi formaður SVÞ - Samtaka Verslunar og Þjónustu, Margrét Sanders, notaði orð verkalýðsforingja til að gagnrýna aðgerðir núverandi forystu, á opinni ráðstefnu samtakanna í tilefni af aðalfundi þeirra sl. fimmtudag. 

Margrét vitnaði í orð Jóns Baldvinssonar, forseta Alþýðusambandsins frá 1938 í gagnrýni sinni á aðgerðir núverandi verkalýðsforystu. Í ræðu Jóns sagði: „Eðli verkalýðshreyfingarinnar er ekki skyndiupphlaup, hávaðafundir og ævintýri heldur markvisst, sleitulaust strit fyrir málefnunum sjálfum. Íslenzkt fólk er frábitið hugsunarhætti kommúnismans og hann sigrar aldrei hér á landi fyrir atbeina Íslendinga. Það er hið hættulegasta ævintýri fyrir íslenzka alþýðu að taka sér merki mannanna frá Moskvu í hönd og ganga með það út í baráttuna. Undir því merki mun hún bíða ósigur og falla."

Margrét bætti svo við að þetta væru „merkileg orð í ljósi herskárrar nálgunar þessarar aðila sem berja bumbur með slagorðum úr kommúnískri fortíð." Sagði hún orðræðu verkalýðsforystunnar ekki endurspegla þau batnandi lífskjör sem þorri þjóðarinnar hefði notið undanfarin ár né taka mið af stöðu efnahagsmála eða atvinnulífsins í dag. Jafnframt efaðist hún um að almenningur væri fylgjandi því að „vinnustöðvanir og ósjálfbærar launahækkanir" snéru góðærinu í hallæri.

Í störfum sínum innan SVÞ og SA hefur Margrét lagt mikla áherslu á breytingu á tilhögun vinnutíma og talað fyrir auknum sveigjanleika. Hún gerði slíkt einnig í ræðu sinni og um leið og hún fagnaði áherslu SA í þessum málum í yfirstandandi kjaraviðræðum hvatti Margrét til breyttrar skilgreiningar á dagvinnutímabilinu til að draga úr innbygðum hvata til yfirvinnu, auka sveigjanleika og nútímavæðast, enda hefðu ákvæði kjarasamninga um vinnutíma ekki breyst frá tímum síðari heimstyrjaldar hér á landi á meðan hún hefði breyst m.a. á öllum hinum Norðurlöndunum. Lagði hún áherslu á að þetta væri jafnframt mikið jafnréttismál og myndi stuðla að fjölskylduvænni vinnumenningu.

Gerði Margrét að umræðuefni þær gríðarlegu breytingar sem atvinnulífið og samfélagið allt standa nú þegar frammi fyrir á tímum fjórðu iðnbyltingarinnar, enda var yfirskrift ráðstefnunnar „Keyrum framtíðina í gang!" Sagði hún Íslendinga þurfa að vakna ef við ætlum ekki að heltast úr lestinni í alþjóðlegri samkeppni.

Menntun innan verslunar og þjónustu hefur ekki verið sem skyldi, og hefur stjórn SVÞ lagt mikla áherslu á að breytingar verði þar á. Þetta er verið að gera m.a. með tilkomu nýrrar brautar til stúdentsprófs hjá Verzlunarskóla Íslands í samstarfi við VR.

Eitt helsta baráttumál Margrétar í formannstíð hennar var afnám vörugjalda og tolla og fagnaði hún því að almenn vörugjöld væru nú liðin tíð. Sýnt hefur verið að þetta hefur skilað sér til neytenda, eins og staðfest hefur verið í skýrslu Hagfræðistofnunar Íslands frá því í september. Margrét lagði þó áherslu á að baráttunni fyrir frjálsum viðskiptum væri ekki lokið, því minnka beri tollvernd búvara enda sé íslenskur landbúnaður vel í stakk búinn til að keppa við innfluttan „á grundvelli sérstöðu, nálægðar, gæða og heilnæmis".

Margrét lagði einnig áherslu á að SVÞ muni halda áfram að berjast fyrir aukinni úthýsingu verkefna hins opinbera, svo sem í póstþjónustu, endurskoðun, í mennta- og heilbrigðiskerfinu. Sagði hún núverandi heilbrigðisráðherra vinna markvisst að því að „rýra hlutverk mikilvægra samtaka eins og Krabbameinsfélagsins og SÁA." Lagði hún áherslu á að blöndun einkareksturs við hið opinbera væri hagkvæmt fyrirkomulag, stuðlaði að fjölbreytni í vali og yki gæði almennt og nefndi aukna fjölbreytni í háskólanámi með tilkomu Háskólans í Reykjavík sem dæmi. 

Margrét þakkaði að lokum stjórn og starfsfólk SVÞ fyrir gott samstarf og bauð nýjan formann, Jón Ólaf Halldórsson, forstjóra Olís velkominn til starfa. 

Stikkorð: Margrét Sanders SVÞ.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is