Margrét Guðmundsdóttir, forstjóri Icepharma, var kjörin formaður Félags Íslenskra Stórkaupmanna á aðalfundi félagsins í dag. Margrét hefur að undanförnu tekið þátt í stefnumótun félagsins sem hún leggur áherslu á að verði fylgt eftir í daglegu starfi FÍS segir í tilkynningu.

Atvinnulífið í landinu standi á erfiðum tímamótum og tryggja verði að fyrirtækjum verði skapað þau rekstrarskilyrði sem geti fleytt þeim í gegnum þá erfiðleika sem framundan eru.     „Það er ljóst að rekstrarskilyrði stórkaupmanna og annarra sem stunda verslun eru verulega skert í dag í hlutfalli við það sem áður var. Við þurfum að veita yfirvöldum aðhald og tryggja að heiðarleiki og réttvísi séu í gildi. Aukin ríkisvæðing má ekki skerða samkeppnisstöðu fyrirtækja og við þurfum að fylgjast með að ný ríkisfyrirtæki fylgi sömu reglum og önnur fyrirtæki í landinu,“ sagði Margrét meðal annars í ræðu sinni eftir formannskjörið.

„Einnig verður að tryggja að jafnræði og gagnsæi sé í hávegum haft við þær aðstæður þegar ríkisbankar eru að leysa til sín fyrirtæki í samkeppnisrekstri. Þannig verður að vera tryggt að engin hætta sé á pólitískum hrossakaupum og spillingu þegar fyrirtækin eru seld.“

Margrét á langan feril að baki í stjórnunarstörfum og hefur haft umsjón með samruna stórfyrirtækja eins og Q8 og BP í Danmörku, og Austurbakka, Icepharma og Ismed á Íslandi.