Margrét Guðmundsdóttir, forstjóri Icepharma og stjórnarformaður N1, hlaut FKA viðurkenninguna 2013 hjá Félagi kvenna í atvinnulífinu. Verðlaunin voru afhent Margréti við hátíðlega athöfn fyrir stundu. Á sama tíma hlutu þær Signý Kolbeinsdóttir og Helga Árnadóttir, eigendur hönnunarfyrirtækisins Tulipop, hvatningarviðurkenningu FKA, og Guðrún Lárusdóttir í Stálskipum Þakkarviðurkenningu FKA. VIðurkenninguna Gæfuspor FKA hlutu svo Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ). Margrét Kristmannsdóttir, formaður SVÞ, tók á móti viðurkenningunni. Gæfuspor FKA er veitt þeim sem öðrum fremur hefur virkjað kraft kvenna til stjórnarsetu eða til áhrifa í atvinnulífinu.

Hver er Margrét?

Margrét er m.a. formaður Félags atvinnurekenda og forseti ESTA (European Surgical Trade Association); evrópskra samtaka dreifingarfyrirtækja á sviði hjúkrunarvara. Hún er viðskiptafræðingur og stundaði nám við Háskóla Íslands, HÍ og CBS í Kaupmannahöfn þar sem hún lauk mastersnámi í starfsmannastjórnun.

Hún hefur víðtæka reynslu af stjórnunarstörfum bæði hérlendis og erlendis; var um árabil einn af stjórnendum hjá Esso og Q8 í Danmörku og hjá Skeljungi og Austurbakka eftir að hún flutti aftur heim. Haustið 2005 var Margréti falið að sameina þrjú fyrirtæki; Austurbakka, Icepharma og Ísmed undir nafni Icepharma.  Fyrirtækin voru öll í eigu Atorku. Hjá Icepharma starfa nú um 80 manns og eru viðskiptavinir félagsins sjúkrahús, apótek, stórmarkaðir og íþróttaverslanir. Árið 2007 keyptu lykilstjórnendur fyrirtækið af Atorku og hefur reksturinn gengið vel. Núverandi framkvæmdastjórn félagsins er skipuð 3 konum og 2 körlum.

Haft er eftir Margréti í tilkynningu frá FKA að hún hafi nef fyrir góðu fólki.

„Ég hef verið ótrúlega heppin með samstarfsfólk alla tíð“ segir hún. „En ég hef líka verið óhrædd við að hleypa öðrum að, leyfa hæfileikum hvers og eins að njóta sín. Í mínum huga er það grunnurinn að því að byggja upp góða liðsheild. Ég hef þá kenningu að þegar stjórnendur fara að óttast breytingar þá eigi þeir að hætta.“