Margrét Tryggvadóttir, þingmaður og frambjóðandi Dögunar, segir að jafnræði eigi að vera milli stjórnmálasamtaka varðandi fjárframlög frá ríkissjóði. Viðskiptablaðið hefur fjallað um þær fjárhæðir sem stjórnmálaflokkarnir mega eiga von á að fá miðað við stöðu þeirra í skoðanakönnunum, en framlögin taka mið af þingstyrk þeirra.

Í svari á spyr.is segir Margrét að stjórnmálastarf verði ekki mælt með fjölda þingmanna, heldur geti stjórnmálahreyfing verið virk þótt hún hafi engan eða lítinn þingstyrk og eins geti stjórnmálaflokkur haft marga þingmenn án þess að halda úti lýðræðislegu flokksstarfi.

„Það að stórir flokkar fái alltaf úthlutað gríðarlegu fé viðheldur stærð þeirra umfram aðra,“ segir hún í svari sínu.

Hún segir að stór hluti fjármagns til stjórnmálasamtaka fari í auglýsingar í ljósvakamiðlum fyrir kosningar þar sem þeir sem fyrir eru á fleti geta keypt sér athygli. „Víðast hvar í löndunum í kringum okkur er slíkt bannað. Bann við slíkum auglýsingum myndi minnka fjárþörfina til muna og minnka lýðræðishallann. Einnig þarf að tryggja að öll framboð fái jafna umfjöllun í fjölmiðlum.“