Verslunin á Íslandi stendur frammi fyrir stórkostlegum tækifærum til að lækka vöruverð á Íslandi en mætir varnarmúr af öflugustu gerð. Varnarmúr  sem felst í því að ekki megi hrófla við innlendri landbúnaðarframleiðslu og einokunarsölu. Þetta kom fram í ræðu Margrétar Kristmannsdóttur, formanns Samtaka verslunar og þjónustu, á aðalfundi samtakanna í gær.

Steingrímur J. Sigfússon hélt ræðu á sama fundi þar sem hann sagði mikilvægt að óheftur innflutningur erlendra landbúnaðarvara yrði ekki leyfður, meðal annars vegna hættu á smitsjúkdómum.

Margrét sagði að samtökin hafi ekki viljað kyngja því að þessi múr telji sig hafinn yfir lög og reglur í landinu og því lagt til atlögu með málshöfðunum. Tók hún dæmi um fjögur mál þar sem hafi unnist sigur.

*Álit umboðsmanns Alþingis, júlí 2010
Heimildir ráðherra til álagningar tolla á innfluttar landbúnaðarvörur stóðust ekki ákvæði stjórnarskrár.
* Dómur héraðsdóms Reykjavíkur, september 2012
Ákvörðun þáverandi landbúnaðarráðherra að breyta úr magntolli yfir í verðtoll gekk gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar.
* Bráðabirgðaákvörðun ESA, mars 2013
Bann íslenskra stjórnvalda við innflutningi á hráu kjöti stóðst ekki ákvæði EES-samningsins.
*  Álit umboðsmanns Alþingis, mars 2013
Á ríkinu hvílir sú lagalega og þjóðréttarlega skylda að bjóða út tollkvóta vegna eggja, sem ríkið vanrækti að gera.

Vilja ná niður matvælaverði

Í máli Margrétar kom fram að ofurkapp væri lagt á að ná niður vöruverði og ekki síst matarverði til að fjölga þeim krónum sem eftir eru í launaumslagi landsmanna þegar greitt hafi verið fyrir lífsnauðsynjar. Þetta þyrfti að gera svo að tryggja mætti hag fyrirtækja sem versla t.d. með föt, húsgögn og raftæki. Draga þarf úr kostnaði heimilanna sem þau komast ekki hjá því að borga.

Margrét sagði enn fremur að ekki væri illur ásetningur á bak við þessa sannfæringu né heldur sé verslunin í stríði við íslenska bændur. „Þvert á móti viljum við öflugan íslenskan landbúnað - en við getum ekki stutt óbreytt landbúnaðarkerfi. Enda á enginn að geta staðið vörð um kerfi sem skilar bændum sultarlaunum - skattgreiðendum og neytendum allt of háum sköttum og dýrasta landbúnaðarverði í heimi.  Það er bara útkoma sem enginn á að sætta sig við, ekki síst bændur sjálfir.“

Margrét segir mögulegt að ná um 130 þúsund króna kaupmáttaraukningu til heimila með verðlækkunum ef dregið yrði úr innflutningshöftum og viðskiptafrelsi aukið. Tók hún sem dæmi að alifuglakjöt gæti lækkað um 35-40%, ís um 30-35%, nautakjöt um 25-30%, unnar kjötvörur um 30-40% og pizzur og skyndiréttir um 15%. Ef meðaltalsmatarreikningur hvers heimilis yrði lækkaður um 10% þá kæmu um 16 milljarðar í vasa landsmanna sem þeir gætu nýtt til að borga skuldr að nota í aðrar vörur og þjónustu.