Í framhaldi af kaupum Atorku á rúmlega 63% hlutafjár í Austurbakka hf hefur Margrét Guðmundsdóttir verið ráðin framkvæmdastjóri félagsins. Margrét, sem er fædd 1954, hefur víðtæka stjórnunarreynslu bæði á Íslandi og í Danmörku. S.l. 10 ár hefur hún starfað sem framkvæmdastjóri Neytendasviðs Skeljungs hf. Þar á undan starfaði Margrét í 9 ár sem framkvæmdastjóri hjá olíufélaginu Q8 í Kaupmannahöfn. Margrét hefur setið í stjórn ýmissa félaga og fyrirtækja, s.s. Q8, Skýrr, Fríkortsins, IP í Kaupmannahöfn m.m.

Margrét skrifaði á sínum tíma bókina Starfsmannastjórnun, sem var fyrsta sinnar tegundar á Íslandi og hefur hún haldið fjölda fyrirlestra og námskeið um stjórnun bæði á Íslandi og erlendis. Margrét mun hefja störf hjá Austurbakka fljótlega.

Margrét lauk Cand. Oecon prófi frá HÍ 1978 og Cand Merc próf frá Copenhagen Business School 1981. Eiginmaður Margrétar er Lúðvíg Lárusson sálfræðingur og eiga þau tvö börn.

Samhliða ráðningu Margrétar hefur Árni Þór Árnason látið af störfum sem forstjóri Austurbakka hf.

Kosin var ný stjórn félagsins á hluthafafundi í gær. Hana skipa: Styrmir Þór Bragason, Ingimar Jónsson, Kristján Jóhannsson, Margrét Guðmundsdóttir og Karl Þór Sigurðsson. Varamenn eru: Jón G. Kristjánsson
og Ágústa Harðardóttir.