Margrét Gunnlaugsdóttir hefur tekið við starfi forstöðumanns mannauðslausna Advania. Hún var áður forstöðumaður á rekstrarlausnasviði fyrirtækisins.

Samhliða örum breytingum í rekstrarumhverfi fyrirtækja koma nýjar áskoranir í mannauðsmálum. Advania hefur verið leiðandi í að mæta þeim og býður fyrirtækjum mannauðslausnir sem auðvelda allt frá ráðningu til starfsloka. Margrét leiðir 42 manna teymi sem annast þróun, þjónustu, ráðgjöf og innleiðingu á lausnunum.

Mannauðslausnir Advania eru þær mest notuðu af stórum fyrirtækjum í íslensku atvinnulífi. Lausnirnar eru tíma- og viðveruskráningakerfi, fræðslu- launa- og mannauðskerfin H3, Bakvörður og Eloomi.

Margrét hóf störf hjá Advania í apríl sem forstöðumaður á rekstrarlausnasviði. Hún hefur nú tekið við starfi forstöðumanns mannauðslausna af Daða Friðrikssyni sem leiðir sölumál á nýju sviði ráðgjafar og sérlausna. Margrét starfaði áður sem vöru- og viðskiptaþróunarstjóri hjá Já, sviðsstjóri hjá Wise og rekstrarstjóri tækniþjónustu hjá Íslandsbanka. Hún hefur því víðtæka stjórnunarreynslu í upplýsingatæknigeiranum.