Óhætt er að segja að Margrét Pála Ólafsdóttir hafa hrist upp í mörgum í vor á ársfundi Samtaka atvinnulífisins þar sem hún hélt krafmikla ræðu. Þar talaði hún um menntaeinokun og heimsku börnin. Sjálf segir hún ræðuna hafa verið lífseiga á alla mögulega vegu. „Miðað við hvað margir urðu reiðir þá minntist ég þess sem móðir mín sagði; sannleikanum verður hver reiðastur. Mér er innilega alvara með allt sem ég sagði þar og hef sagt um menntakerfið, sem og önnur risavaxin kerfi sem við erum að reyna að láta virka fyrir okkur. Við þurfum ekki lengur að tala um hvort við viljum breytingar. Öll þessi stóru kerfi og stóru lausnir sem við bjuggum til á 19. og 20. öldinni eru ekki að halda. Það hefur ekkert með pólitískar skoðanir að gera. Breytingar eru að gerast nú á meðan við sitjum hér og það verða breytingar á morgun. Yfirgnæfandi meirihluti allra grunnskólabarna í heiminum í dag munu vinna störf sem við vitum ekki hvað heita. Hvað þá hvað þau munu fela í sér. Þannig að stórar lausnir munu líka þurfa að taka miklum stakkaskiptum.“

Margir hrukku í kút við orð Margrétar Pálu um heimskustu börnin. á fundi Samtaka atvinnulífsins. Þó það hafi verið sagt á léttu nótunum er undirtónninn heldur alvarlegri. Umræðuhefðin er of svart hvít að mati Margrétar Pálu. „Þetta er gamall brandari sem ég hef lengi sagt. Við Íslendingar erum svo upptekin af þessu. Við áttum Jón Pál og þá trúum við því að við eigum sterkustu karla í heimi. Síðan áttum við fegurðardrottningar og þá eigum við fegurstu konur í heimi. Við komum svo hræðilega úr út Pisa könnun og þá fara allir á taugum og segja að við séum þá með heimskustu börn í heimi. Þessi árátta okkar í svörtu og hvítu lífi var það sem ég vildi vekja athygli á. Við eigum stórkostleg börn, vel gefin, vel gerð, frábær, hugmyndarík og fjölmörgum gengur alveg bærilega í hefðbundnu skólakerfi. Mörgum gæti hinsvegar gengið betur ef kerfið væri sveigjanlegra. Svo er einn hópur sem stendur hjarta mínu næst og ég sagði tæpitungulaust á fundi SA að skólakerfið væri að eyðileggja þessa krakka. Þetta eru krakkar sem fóta sig ekki í hefðbundnu bóknámi. Þetta eru krakkarnir sem hafa allt aðra eiginleika og allt aðra hæfni. Allir ofvirku krakkarnir, allar einhverfugreiningarnar og allt annað sem er að gerast og er í raun fjölbreytni mannlífsins. Þetta segir okkur með upphafsstöfum að þau þurfa mjög ólíkar lausnir. Kerfið okkar er allt of einsleitt og einmitt í einsleitninni eru þessi börn að tapa. Þetta eru gjarnan krakkarnir sem eru uppreisnarseggir, krakkar sem vilja gera eitthvað öðruvísi og eitthvað annað. Þetta eru eiginleikar sem við eigum að rækta og fagna og búa að þeim þannig að þau þurfi ekki að vera í tíu ár í einsleitu menntakerfi, heldur fá að dafna eins og þau eru. Samfélagið er eingöngu að tapa á hverju einasta barni sem tapar gleðinni, frumleikanum, hugsuninni, kjarkinum og öðru slíku í skólakerfinu. Hvert einasta slíkt barn kostar samfélagið fáranlega mikið. Þetta eru börnin sem ég er að hitta og það er ekki bara eitt barn, þau eru fleiri. Á meðan svo er þá erum við í fjári vondum málum, en hjarta mitt brennur fyrir þessum krökkum. Ég er sjálf ofvirk, hvatvís og með einbeitingarskort. Ég þarf að halda mér við efnið. Ég veit alveg hvernig okkur getur liðið inni í aðstæðum sem eru búnar til að henta meðaltalinu. En við glötum fólki og erum að glata krökkum. Ég var því að skora á atvinnulífið að blanda sér inn í þetta mál. Af hverju situr atvinnulífið á einum stað og er ekki einu sinni að velta fyrir sér hvaða áhrif það gæti haft á menntakerfið. Ég skoraði á atvinnulífið að koma og taka á árinni með okkur. Þetta er málefni okkar allra, það eiga allir að skipta sér af menntamálum,“ segir Margrét Pála og er heitt í hamsi enda hennar hjartans mál eins og hún sjálf segir. „

Nánar er rætt við Margréti Pálu í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins þar sem farið er yfir árið 2014.