Margrét Helgadóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Ferðaskrifstofu Íslands. Hún tekur við af Þorsteini Guðjónssyni. Margrét hefur áralanga reynslu af störfum á sviði ferðamála og er fyrsta konan sem gegnir starfi framkvæmdastjóra hjá félaginu.

Fram kemur í tilkynningu að Margrét lauk námi í ferðamálafræðum frá HTC College í Bandaríkjunum og BS gráðu í fjölmiðla- og upplýsingafræði frá Ohio University í Bandaríkjunum árið 1989. Margrét er gift Ásgeiri Heimi Guðmundssyni viðskiptafræðingi og saman eiga þau 3 börn.

Þá segir í tilkynningunni að Ferðaskrifstofa Íslands er stærsta ferðaskrifstofa landsins sem samanstendur af Úrvali Útsýn, Sumarferðum og Plúsferðum, auk þess að vera eigandi að Heklu Travel í Danmörku og Svíþjóð.

Þrjár konur eru nú í yfirstjórn ferðaskrifstofunnar en auk Margrétar eru þær Rannveig Guðmundsdóttir fjármálastjóri og Steinunn Tryggvadóttir, sölu-og starfsmannastjóri.