Margrét Jónsdóttir Njarðvík
Margrét Jónsdóttir Njarðvík
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Margrét Jónsdóttir Njarðvík hefur verið ráðin rektor Háskólans á Bifröst frá og með 1. júní 2020, en hún var valin úr hópi sjö umsækjenda. Margrét er með doktorspróf í spænsku máli og bókmenntum frá Princeton University og MBA frá Háskólanum í Reykjavík.

Hún hefur reynslu af alþjóðastarfi á menntasviði, sem og úr íslenskum háskólum en hún var lektor í spænsku við Háskóla Íslands og síðan dósent við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík á árunum 1995-2007. Árið 2007 tók hún við starfi forstöðumanns alþjóðasviðs Háskólans í Reykjavík þar sem hún mótaði og leiddi m.a. alþjóðastarf og erlent markaðsstarf skólans.

Margrét stofnaði árið 2011 fyrirtækið Mundo sem hún hefur síðan stýrt en fyrirtækið sérhæfir sig m.a. í þjálfunarferðum íslenskra kennara erlendis, skiptinámi og sumarbúðum ungmenna erlendis og annast ráðgjöf í alþjóðamálum. Má þar m.a. nefna úttekt á þróunarsjóði EFTA á Spáni.

Margrét hefur setið í stjórnum fyrirtækja, m.a. sem stjórnarformaður Hótels Sigluness á Siglufirði og í Forlaginu JPV. Hún situr í stjórn Félags kvenna í atvinnulífinu, FKA; gegnir formennsku í spænsk-íslenska viðskiptaráðinu auk þess sem hún var stjórnarmaður í Fulbright á Íslandi um fimm ára skeið og hefur frá árinu 2001 verið vararæðismaður Spánar hér á landi. Konungur Spánar veitti Margréti heiðursorðuna Isabela la Católica fyrir þau störf. Margrét er gift Hálfdáni Sveinssyni og á hún þrjá syni og 2 stjúpbörn.

Hér má sjá fréttir um tilraunir Háskólans á Bifröst til að selja fasteignir á svæðinu en þar hefur löngum verið rekið hótel: