Margrét Guðlaugsdóttir, Mag.jur., hefur hafið störf sem verkefnisstjóri við Lagastofnun Háskóla Íslands. Mun hún vinna að rannsóknarverkefni á sviði auðlindaréttar um raforkulöggjöf á Íslandi og í Evrópu.

Hún útskrifaðist af nýmálabraut Menntaskólans við Hamrahlíð vorið 1999 og lauk BA-prófi frá lagadeild Háskóla Íslands vorið 2007. Sumarið 2007 lauk Margrét námskeiði í þýsku fyrir erlenda stúdenta (DaF-Zertifikat) í Westfällische Wilhelms-Universität Münster, Þýskalandi.

Margrét lauk meistaraprófi frá lagadeild HÍ nú í vor en þar lagði hún áherslu á þjóðarétt og umhverfis- og auðlindarétt. Meistararitgerðina, Framkvæmdaaðgerðir svæðisbundinna fiskveiðistjórnunarstofnana vegna ólöglegra fiskveiða á úthafinu, skrifaði hún undir handleiðslu Péturs Dam Leifssonar dósents. Margrét starfaði sem ritari í lögfræðideild sýslumannsins í Kópavogi árin 2000-2003 og var samhliða því ritari fyrir gjafsóknarnefnd. Á sumrin meðan á náminu stóð vann hún við ýmis störf í lögfræðideild sýslumannsins í Kópavogi.