Margrét Sanders, formaður Samtaka verslunar og þjónustu og fyrrum framkvæmdastjóri Deloitte, hefur ákveðið að gefa kost á sér í 1. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokks í Reykjanesbæ fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Frá þessu er greint í Víkurfréttum en Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ mun stilla upp á lista að þessu sinni.

Margrét starfar nú sem ráðgjafi og er meðeigandi ráðgjafafyrirtækisins Strategíu. Margrét starfaði sem framkvæmdastjóri hjá Deloitte á Íslandi í 17 ár eftir háskólanám í viðskiptafræði og MBA í Bandaríkunum..

Margrét er gift Sigurði Guðnasyni og eiga þau 2 börn, þau Sigríði og Albert Karl sem lést 2011. Fósturdóttir Margrétar og dóttir Sigurðar er Sylvía Rós.

Á miðvikudaginn greindi Árni Sigfússon fyrrverandi bæjarstjóri Reykjanesbæjar og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ að hann myndi ekki gefa kost á sér til þess að leiða lista flokksins aftur.