Í yfirlýsingu sem fráfarandi meirihluti í stjórn Reykjavíkurborgar hefur sent frá sér kemur fram að Margrét Sverrisdóttir, varaborgarfulltrúi F-listans, hyggst starfa með stjórnarandstöðunni.

Í yfirlýsingunni sem send er frá netfangi Dags B. Eggertssonar, fráfarandi borgarstjóra, segir að borgarstjórnarhópur Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks muni starfa saman að fullum heilindum. Margrét Sverrisdóttir og Guðrún Ásmundsdóttir eru líka í hópnum.

Í yfirlýsingunni segir: „Á fundi borgarstjórnarflokks Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks ásamt Margréti Sverrisdóttur og Guðrúnu Ásmundsdóttur annars og þriðja manns F-lista var ákveðið að starfa áfram saman af fullum heilindum og hafa nána samvinnu um málflutning og tillögugerð, hér eftir sem hingað til. Haldnir verða sameiginlegir fundir borgarstjórnarflokkanna og efnt til samstarfs um kosningar í nefndir og ráð. "