Margrét Guðmundsdóttir, forstjóri Icepharma, telur nauðsynlegt að hér rísi nýtt háskólasjúkrahús sem fyrst, og því fylgi mikil tækifæri. „Það er margbúið að reikna út hagkvæmni þess. Ef við horfum á Íslendinga almennt þá er með ólíkindum hvað við leitum ávallt aftur heim, án tillits til þess í hversu góðum störfum við erum erlendis eða hversu miklar tekjur við höfum. Það er eitthvað hér heima sem kallar á okkur, sem sennilega má skýra með þeirri miklu nánd sem er hér.

Þetta þýðir að í heilbrigðiskerfinu eru miklir möguleikar á að fá heim mjög vel menntaða starfsmenn. Það eru gríðarleg tækifæri í þessum geira. Við finnum það hér hjá okkur að það er áhugi meðal lyfjabirgja að gera rannsóknir á Íslandi. Þeir eyða milljónum á rannsóknartímabilinu í að prófa ný lyf. Hér er einsleit þjóð með vel menntaða lækna. En umhverfið þarf að vera hvetjandi. Ef við notum alltaf gömlu og ódýrustu lyfin þá er áhugi birgja enginn. Ef framtíðin í að selja þessi lyf hérlendis er engin þá koma þeir ekki. Þarna er tækifæri sem skemmtilegt væri að vinna með.“

Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er að finna ítarlegt viðtal við Margréti. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.