Fólk er í sífellt auknum mæli farið að líta á samfélagsmiðla sem sjálfsagðan hlut og ein af afleiðingum þess er að fólk er líklegra til að deila persónulegum upplýsingum á þessum miðlum, þar á meðal viðkvæmum upplýsingum sem óvandaðir einstaklingar geta notað í glæpsamlegum tilgangi, að sögn Dr. Rey Leclerc Sveinssonar. Rey er yfirmaður upplýsingaöryggisþjónustu Deloitte á Íslandi og hefur yfir 30 ára reynslu af rekstri og ráðgjöf vegna öryggis upplýsingakerfa og áhættustýringu auk annars.

„Glæpamenn eru farnir að einbeita sér að samfélagsmiðlum í auknum mæli, með notkun njósnaforrita og öðrum prettum,“ segir Rey.

Rey Leclerc Sveinsson.
Rey Leclerc Sveinsson.

Dagur gagnaverndar er alþjóðlegur dagur um verndun gagna sem haldið er upp á 28. janúar ár hvert. Um er að ræða dag sem ætlaður er til að vekja almenning til umhugsunar um eigin gagnavernd og til þess að minna á hversu mikilvægt það er að stýra sinni rafrænu slóð. Tilgangur dagsins er að auka vitund, hvetja til fræðslu um gagnavernd og minna fólk á að verndun gagna er málefni sem varðar alla. Dagurinn verður í fyrsta skipti haldinn hátíðlegur á Íslandi í ár og er það að tilstuðlan Deloitte, sem heldur hádegisverðarfund um gagnavernd og öryggi á mánudaginn.

Rey er meðal fyrirlesara á fundinum og mun hann fara yfir það sem helst ber að varast við notkun samfélagsmiðla.

Passa verður upp á lykilorðið

„Fyrst ber að nefna að lykilorð verða að vera sterk og svo verður að fara varlega þegar öryggisspurningum er svarað. Lykilorð verða að vera flókin og alls ekki heil orð sem hægt er að fletta upp í orðabókinni. Best er að nota blöndu af bók- og tölustöfum og öðrum táknum. Svo er gott að forðast það að nota sömu lykilorð á mörgum vefsíðum, því ella getur það gerst að tölvuþrjótar ná að brjóta sér leið inn á eina þeirra og geta í kjölfarið farið inn á fleiri síður. Þegar kemur að því að semja öryggisspurningar, sem notaðar eru ef maður gleymir lykilorðinu, ber að forðast að nota spurningar og svör sem fela í sér persónulegar upplýsingar, t.d. síðustu fjóra stafina í kennitölu.“

Rey segir einnig að samfélagsmiðlar eins og Facebook bjóði upp á mismunandi friðhelgisstillingar og með því að breyta þeim sé hægt að gera síðuna öruggari.

„Þá er ekki síður mikilvægt að fólk skilji eðli viðkvæmra persónuupplýsinga. Þegar upplýsingar eru komnar á vefinn þá eru þær ekki lengur leyndarmál og því verður fólk að hugsa sig tvisvar um áður en það gefur upp slíkar upplýsingar á samfélagsmiðlum. Ólíklegustu upplýsingar geta verið þrjótum verðmætar, því þeir geta tengt saman mismunandi upplýsingabrot og notað þau til að framkvæma alls kyns glæpi og jafnvel persónuþjófnað (e. identity theft). Upplýsingar af þessu tagi eru t.d. fullt nafn, afmælisdagur og -ár, nöfn barna og ættmenna, heimilisfang og upplýsingar um ferðalög og það hvenær maður er fjarri heimilinu.“

Dagur gagnaverndar verður haldinn í hádeginu á mánudag í Turninum við Smáratorg í Kópavogi og er öllum opinn, en nauðsynlegt er að skrá sig á fundinn á heimasíðu Deloitte, www.deloitte.is .