Þeir Einar Benediktsson, forstjóri Olís, og Gísli Baldur Garðarsson, eigendur Olís, fengu 5,5 milljarða króna kúlulán í erlendri mynt hjá Landsbankanum þegar þeir keyptu olíuverslunina í nafni einkahlutafélagsins FAD 1830 um mitt ár 2003. Lánið var upphaflega til tveggja ára en framlengt og var á endanum á gjalddaga árið 2009. Lánið stökkbreyttist í gengishruninu. Ekkert liggur fyrir um lánið að öðru leyti þar sem hending virðist ráða því hvenær ársreikningum FAD 1830 er skilað til Ársreikningaskrár.

Fram kom fyrr í dag að samkomulag hafi náðst á milli eigenda Olís og Landsbankans um fjárhagslega endurskipulagningu olíuverslunarinanr og tengdra félaga. Þar á meðal er FAD 1830, sem fyrir skemmstu var breytt í félagið GESE. Kennitala félagsins breyttist hins vegar ekki.

Samkomulagið felur í sér að Landsbankinn leiðréttir og niðurfærir hluta af lánum félaganna meðal annars í samræmi við dóma um ólögmæti gengislána og að eftirstandandi lán félagsins verði endurskipulögð. Samkomulagið er endanlegt, þótt ekki liggi fyrir dómsniðurstaða, um allar tegundir gengistryggðra lána til félaganna, að því er segir í tilkynningu frá Olís.

Þá kemur fram ekki liggi fyrir hve stór hluti niðurfærslunnar er vegna leiðréttinga gengistryggðra lána og hve mikið bankinn þarf að gefa eftir af skuldum.

Huldufélagið FAD 1830

Lítið liggur fyrir um stöðu FAD 1830, móðurfélags Olís, þar sem félagið hefur aðeins skilað þremur ársreikningum eftir að félagið keypti olíuverslunina. Síðasta ársreikningi var skilað árið seint í desember 2008 fyrir uppgjörsárið 2007. Athygli vekur hins vegar að Olís greiddi eigendum sínum, FAD 1830, samanlagt 3,4 milljarða króna í arð á árunum 2004 til 2009 eins og ársreikningar Olís gefa til kynna. Á sama tíma nam uppsafnað tap fyrirtækisins rúmum 1,1 milljarði króna.

Af einstökum arðgreiðslum Olís má nefna að fyrir uppgjörsárið 2003 var hún  tæplega tvöfalt meiri en hagnaður olíuverslunarinnar á sama tíma, tæpir 1,3 milljarðar króna. Þetta var fjórða hæsta arðgreiðslan sem fyrirtæki á Íslandi greiddi út árið 2004, að því er fram kemur í Rannsóknarskýrslu Alþingis. Þá rann allur hagnaður næstu tveggja ára Olís í vasa eigenda.

Arður var ekki greiddur út á árunum 2007 og 2009. Á sama tíma og Olís tapaði tæpum sex milljörðum árið 2008 námu arðgreiðslur hins vegar 625 milljónum króna.

Þá greindi Viðskiptablaðið frá því fyrir skemmstu að vafi léki á rekstrarhæfi olíuverslunarinnar. Eignir Olís í lok árs 2010 námu 16,5 milljörðum króna og voru skuldir 15,1 milljarður. Eigið fé félagsins nam því 1,4 milljörðum króna. Þá kemur fram að tæplega tveggja milljarða króna lán félagsins hafi fallið á gjalddaga í maí í fyrra auk þess sem Olís á kröfu upp á 1,4 milljarða króna á móðurfélagið sem samkvæmt síðasta ársreikningi var með neikvætt eigið fé auk þess að hafa ekki fært 560 milljóan króna stjórnvaldssekt vegna olíusamráðsins í reikninga sína. Þá kemur fram í ársreikningi Olís að óvissa ríki um endurgreiðslu kröfunnar á FAD 1830.

Nýir hluthafar

Viðskiptablaðið greindi nýverið frá því að fjárhagsleg endurskipulagning Olís og tengdra félaga væri á lokametrunum og mundu nýir hluthafar koma að olíuversluninni. Blaðið hafði heimildir fyrir því að aðilar tengdir Samherja og Kaupfélagi Skagfirðinga væru þar á meðal en stefnt væri að því að fjárfestahópurinn yrði nokkuð breiður. Þá kom sömuleiðis fram að þeir Einar Benediktsson og Gísli Baldur yrðu með í hluthafahópnum. Óvíst er hver hlutur þeirra verði og muni hann ráðast af því hversu mikið fjármagn þeir leggi til félagsins.

Fram kemur í tilkynningu frá Olís í dag þar sem tilkynnt var um endurskipulagningu olíuverslunarinnar og tengdra félaga að þetta verði raunin og að þeir Einar og Gísli ætli að afla félaginu viðbótar hlutafjár. Sá hluti sé þegar fjármagnaður en ekki liggi fyrir hvernig hluthafahópurinn verði samansettur.