Nú liggja fyrir Alþingi tvær þingsályktunartillögur um millilandaflug um Hornafjarðarflugvöll, Ísafjarðarflugvöll og Vestmannaeyjaflugvöll. Samkvæmt tillögunum á innanríkisráðherra að tryggja að bæta útbúnað og aðstöðu til að hægt verði að sinna millilandaflugi frá þessum flugvöllum.

„Isavia telur það ranga forgangsröðun ef fjármagn sem bráðvantar til viðhalds og reksturs innanlandsflugvalla yrði veitt til uppbyggingu fleiri millilandaflugvalla,“ segir Friðþór Eydal, upplýsingafulltrúi Isavia.

Friðþór segir ýmsar ástæður mæla gegn því að millilandaflugvöllum verði fjölgað á Íslandi. „Auk Keflavíkurflugvallar eru flugvellirnir í Reykjavík, á Akureyri og Egilsstöðum þegar búnir til afgreiðslu millilandaflugs en því fylgir verulega aukinn rekstrarkostnaður. Framkvæma þarf flugverndarskoðun og vopnaleit á öllum brottfararfarþegum innan evrópska efnahagssvæðis en vegna fjarlægðar frá meginlandi Evrópu nýtur innanlandsflug á Íslandi undanþágu frá þeirri reglu.“

Segir hann jafnframt að flugverndarskoðun farþega og farangurs hafi aukakostnað í för með sér auk þess sem krafist sé meiri mannafla á millilandaflugvöllum. „Þannig er rekstrarkostnaður Egilsstaðaflugvallar, sem þó býr við lægstan rekstrarkostnað millilandaflugvalla, um 200% hærri en innanlandsflugvallanna á Ísafirði og í Vestmannaeyjum. Auk þessara atriða hamla t.d. landfræðilegar aðstæður því að Ísafjarðarflugvöllur geti orðið millilandaflugvöllur.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .