Styrmir Guðmundsson
Styrmir Guðmundsson
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Trúverðugleiki Seðlabankans er lítill sem enginn sökum þess að bankinn virðist sífellt vera að stefna að verðbólgumarkmiði sem enginn annar en hann sjálfur metur trúanlegt,“ segir Styrmir Guðmundsson, sjóðstjóri hjá Júpíter rekstrarfélagi. Ef litið er til verðbólguvæntinga má draga þá ályktun að bankanum hafi ekki gengið sem skyldi að reka trúverðuga stefnu, það er að aðilar trúi því að Seðlabankinn hafi tök á verðbólgunni. Styrmir segir margt leggjast á eitt í að rýra trúverðugleika bankans. „Í viðleitni sinni til að ná markmiðinu er beitt bitlitlu tæki með óþægilegum hliðaráhrifum og skelfilegum sögulegum árangri. Mun trúverðugra væri að hafa vikmörk verðbólgumarkmiðsins víðari,“ segir Styrmir og bætir við að núverandi stjórnendur bankans aðhyllist hávaxtastefnu eins og þá sem beitt var á undanförnum árum. Ekki sé um það deilt að vaxtamunur og viðskipti með þau laða skammtímafjárfesta til landsins. „En það gagnast íslensku krónunni lítið að fá inn kvikt fjármagn, það mun streyma aftur út og yfirleitt á versta tíma eins og gerðist árið 2008.“

Fleiri spurningar en svör

Styrmir gagnrýnir einnig síðustu vaxtaákvörðun bankans og segir hana búa til fleiri spurningar en hún svarar. „Stærstu seðlabankar heimsins hafa tekið fótinn af bremsunni og stigið á bensíngjöfina. Í Bandaríkjunum er rætt um peningaprentun og í Evrópu er fjallað um frekari kaup á skuldum ríkja í vanda og ríkisábyrgðir. Seðlabankarnir eru því að gera hvað þeir geta til að koma hagkerfum sínum af stað. Á sama tíma eru hagvaxtarspár alþjóðastofnana lækkaðar niður á við. Þessi þröngu skilyrði erlendis munu bitna á íslenska hagkerfinu, líkt og öllum öðrum, en nýlegar tölur sýna hversu veikur viðsnúningur er hérlendis.“

Hagstofan birti í síðustu viku endurskoðaðar hagtölur síðasta árs. Hagvöxtur mælist 0,5 prósentum lægri en áður var talið og samdráttur síðasta árs var þá 4%. Ennfremur mældist vöxtur landsframleiðslu á 2. ársfjórðungi 2,5%. Það er minni hagvöxtur en spá Seðlabankans gerði ráð fyrir. „Því miður er líklegt að Seðlabankinn sé að ofmeta hagvöxt, atvinnustig, fjárfestingu og verðbólgu,“ segir Styrmir.

„Það er því ýmislegt sem leggst á eitt til að rýra trúverðugleikann. Það að fátt liggi fyrir um eiginlega peningamálastefnu í framtíðinni er slæmur óvissuþáttur. Þá virðist bankinn byrjaður á nýju ferli peningalegs aðhalds, þegar flestum heimilum og fyrirtækjum blæðir enn. Illa tímasettar aðgerðir, eins og síðasta vaxtahækkun, eru hvað mest skaðlegar.“ Styrmir telur réttast að hagkerfið njóti vafans í ríkjandi ástandi. Peningastefnunefnd hefði átt að bíða með síðustu vaxtaákvörðun þar til tölur Hagstofunnar lægju fyrir og að fylgjast frekar með framvindu erlendis. „Í stað þess að nú sé frekari vaxtahækkunum ýtt af borðinu er þvert á móti líklegt að bankinn hækki aftur vexti um 25 punkta, til að sýna fram á réttmæti síðustu ákvörðunar. Slíkt rýrir trúverðugleikann meira en flest annað, og vonandi verður það ekki raunin.“

Úttekt á peningastefnu Seðlabankans er að finna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.