Í haust munu ferðaþjónustufélögin, líkt og önnur, væntanlega þurfa að leggjast yfir sín mál, skoða hvað þeim tókst að gera í sumar og hvernig veturinn mun líta út. Mögulega munu mörg af þeim þurfa að taka erfiðar ákvarðanir, ég held að það hafi alltaf legið fyrir,“ segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.

Hann bendir á að viðbótarlánin sem Seðlabankinn hefur umsjón með fyrir hönd ríkissjóðs séu eitt af þeim tækjum sem bankarnir hafa til endurskipulagningar á greininni. Lánin eru með allt að 70% ríkisábyrgð og er heimild fyrir 46,6 milljarða króna lánveitingu.

Sjá einnig: Lifa ekki á lánsfé og styrkjum

Lítil eftirspurn hefur verið eftir slíkum lánum sem hann telur jákvætt, staðan gæti breyst hratt í haust. „Það á ekkert alltaf við fyrir félög sem lenda í erfiðleikum að auka skuldastöðu sína en það er mikilvægt að bjóða upp á kostinn. Ástandið er ekki búið og gæti vel verið að ásóknin verði meiri í haust en var í vor,“ segir Ásgeir.

„Við erum nú búin að lækka stýrivexti niður í 1% og séð eftirspurn aukast í kjölfarið. Sá möguleiki er vitaskuld fyrir hendi að lækka vexti frekar en það er margt fleira sem Seðlabankinn getur gert. Við erum miklu styttra á veg komin með aðgerðir tengdar efnahagsreikningi bankans samanborið við Seðlabanka erlendis,“ segir Ásgeir, spurður hvort Seðlabankinn búi yfir frekari aðgerðum til að örva hagkerfið.

Fjárfesting komi vonandi til með að aukast

„Hagkerfið hefur brugðist tiltölulega hratt við lækkun stýrivaxta hérlendis og ég held að það muni halda áfram. Við hefðum gjarnan viljað sjá fjárfestingu taka við sér, enda svigrúm fyrir nýjum verkefnum. Þetta er líka mjög góður tími fyrir fjárfestingar í samgönguinnviðum. Bæði til að auka eftirspurn auk þess sem vextir eru sögulega lágir, innanlands og erlendis,“ segir Ásgeir og ítrekar að full áhrif vaxtalækkana geti komið í ljós á einu eða tveimur árum.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .