*

sunnudagur, 21. júlí 2019
Innlent 18. ágúst 2018 11:05

Margt þarf að ganga upp

„Það var svo sem vitað að róðurinn hafi verið þungur í fyrra þar sem félagið birti ekki ársreikning fyrr en seint og um síðir."

Ástgeir & Trausti
Haraldur Guðjónsson

Staðan er klárlega krítísk," segir Kristján Sigurjónsson ritstjóri vefmiðilsins Túrista og sérfræðingur í málefnum tengdum íslenskri ferðaþjónustu, spurður um hvernig hann meti fjárhagsstöðu WOW air eftir að upplýsingar um fjárhagsstöðu félagsins birtust á miðvikudag. „Það var svo sem vitað að róðurinn hafi verið þungur í fyrra þar sem félagið birti ekki ársreikning fyrr en seint og um síðir. Nú kemur í ljós að róðurinn hafi þyngst enn frekar sem þarf heldur ekki að koma á óvart þar sem hátt olíuverð er að gera flestum flugfélögum erfitt fyrir og á sama tíma eru meðalfargjöld lág vegna mikillar samkeppni. Það var nokkuð ljóst að þetta hlyti að vera staðan og við fáum það svo staðfest núna að WOW air er ekkert undanskilið þessari þróun í evrópskum flugrekstri," segir Kristján.

Hann segir ansi margt þurfa að ganga upp svo áætlanir félagsins gangi eftir. „Varðandi þetta útboð þá vonar maður það besta. Þetta útboð hefði varla verið sett af stað nema það hafi verið kominn einhver vilyrði fyrir hluta af þessari fjármögnun og að forsvarsmenn WOW og Pareto séu bjartsýnir á að þessi skuldabréfaútgáfa myndi takast. Það sem vekur þó athygli í þessu plaggi eru áætlanir félagsins fyrir árið 2019. Ef þær eiga að ganga upp þá þarf eiginlega allt að vera félaginu í hag á næsta ári. Það er, olíuverð má sennilega ekki hækka mikið, það þarf að ganga vel að selja farþegum hærri fargjöld því það kemur líka fram að fargjöldin eigi að hækka. Á sama tíma er félagið að fara út í áhættu með því að hefja flug til Indlands. Það kemur manni á óvart hversu mikill viðsnúningurinn á að vera á næsta ári. Þetta eru háleit markmið. Staðan er augljóslega snúin en það er von og maður vonar að þetta gangi upp hjá þeim þar sem það er mikið í húfi fyrir íslenska ferðaþjónustu og þar af leiðandi fyrir íslenskan efnahag.

Kristján bendir einnig á að WOW eigi nánast engar eignir til þess að selja komi til þess að losa þurfi um lausafé. „Lausafé WOW er mjög takmarkað. Rekstur lágfargjaldaflugfélagsins Norwegian er oft til umræðu í skandinavísku viðskiptapressunni og þar er oft bent á að félagið eigi varasjóð í öllum þeim flugvélum sem félagið á og stórum flugvélapöntunum. Því miður er það ekki staðan hjá WOW þar sem félagið er með langstærstan ef ekki allan sinn flugflota á leigu þannig að þeir geta ekki hallað sér upp að því ef þörf krefur. Sem dæmi þá hefur Norwegian sagt að þeir ætli sér að selja eldri flugvélar til að bæta lausafjárstöðu sína en WOW getur ekki gripið til þess ráðs. Staða félagsins er ekki góð. Það hefur nánast enga sjóði til þess að koma sér í gegn um öldusjóinn."

Spurður hvort að WOW air muni grípa til þess að hækka flugfargjöld til þess að áætlanir félagsins gangi eftir nefnir Kristján að íslensku flugfélögin eru verðtakar á leiðinni yfir Norður-Atlantshaf. „Norwegian leiðir þennan slag og við sjáum einnig að stóru flugfélögin eru að breyta hjá sér. British Airways er komið með þetta Level lágfargjaldaflugfélag og þá eru einhver af þessum stóru félögum farin að selja farmiða án farangurs þannig þau eru komin í lágfargjaldamódel að hluta. Eins og staðan er núna er ekki útlit fyrir annað en að samkeppnin verði áfram mjög hörð."

Kemur þetta heim og saman við það sem Sveinn Þórarinsson, greinandi hjá hagfræðideild Landsbankans, sagði í viðtali við Viðskiptablaðið í síðasta mánuði þar sem hann benti á að Icelandair væri verðtaki á flugleiðinni frá Evrópu til NorðurAmeríku og hefði lítið sem ekkert ráðrúm til þess að hreyfa verð á flugi heldur þyrfti að elta það sem samkeppnisaðilarnir væru að gera. Benti Sveinn á að ákveðinn framboðsvandi væri á markaðnum, þá sérstaklega vegna Norwegian.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Skúli Mogensen WOW air