Vegagerðin er í vanda vegna andstöðu við vegagerð um Teigskóg við Þorskafjörð á Vestfjörðum. Heit umræða var um málið á fundi á Patreksfirði á þriðjudag.

Þverun yfir mynni Þorskafjarðar myndi þó leysa þann vanda auk þess að geta skilað tekjum með virkjun sjávarfalla samkvæmt hugmynd Bjarna Maríusar Jónssonar.

Virkjun sjávarfallaorku á Íslandi til raforkuframleiðslu er óskrifað blað þar sem mikill skortur hefur verið á rannsóknum og þekkingu á þeim málum. Það vakti því talsverða athygli meðal áhugamanna um virkjanamál  þegar Bjarni varði ritsmíðar sínar um þessi mál á sumardaginn fyrsta í fyrstu meistaraprófsvörninni í haf- og strandsvæðastjórnun sem fram hefur farið við Háskólasetur Vestfjarða.

Þá hefur verið stofnað sprotafyrirtæki um hugmyndina sem heitir Vesturorka - WesTide ehf. Að því standa í dag, auk Bjarna, Orkubú Vestfjarða, Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða og Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Margar flugur í einu höggi

Talsvert hefur verið rætt um vegagerð um Þorskafjörð á undanförnum árum. Undanfarin misseri hafa menn einblínt á svokallaða B-leið sem á að liggja um kjarrlendi Teigsskóga. Sú vegagerð virðist nú nánast út úr myndinni í kjölfar deilna og kærumála.

Önnur möguleg leið sem Vegagerðin hefur þegar hannað að hluta er svokölluð A-leið. Það er þverun yfir mynni Þorskfjarðar frá Reykjanesi yfir í Skálanes sem er um 2,5 kílómetra leið og með tengingu í Kollafjörð. Þessi vegagerð myndi slá margar flugur í einu höggi og gefur möguleika á þeirri virkjun sem Bjarni  nefnir. Auk þess myndi hún koma í veg fyrir áframhaldandi deilur vegna vegagerðar um Teigsskóg, Djúpafjörð og Gufufjörð og losa menn við allt rask á þeim svæðum.

Bjarni er nú að skoða frekar fjárhagsforsendur slíkrar virkjunar, m.a. með athugun á kostnaði við túrbínur og annað.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu