N‎ý stjórn Kaldalóns verður skjálfkjörin á aðalfundi fasteignafélagsins á fimmtudaginn. Meðal fimm frambjóðanda eru ‏þrír sitjandi stjórnarmenn ásamt Maríu Björk Einarsdóttur, fjármálastjóra Eimskips og fyrrum forstjóra Ölmu íbúðafélags, og Hauki Guðmundssyni, framkvæmdastjóra Hafnargarðs.

María Björk og Haukur koma inn í stjórnina fyrir Magnús Inga Einarsson, fjármálastjóra Skeljar fjárfestingarfélags, og Gunnar Henrik Gunnarsson, fjárfesti og hluthafa í Kaldalóni. Gunnar tekur sæti í varastjórn fasteignafélagsins.

Eftirtalin gáfu kost á sér í stjórn Kaldalóns:

  • Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, stjórnarformaður
  • Álfheiður Ágústsdóttir, sitjandi stjórnarmaður
  • Kristín Erla Jóhannsdóttir, sitjandi stjórnarmaður
  • Haukur Guðmundsson
  • María Björk Einarsdóttir

María Björk Einarsdóttir var ráðin fjármálastjóri Eimskips sumarið 2021. Hún starfaði ‏þar áður sem framkvæmdastjóri Ölmu íbúðafélags, sem hét áður Almenna leigufélagið, árin 2015-2021. Þar áður starfaði hún sem sérfræðingur í sérhæfðum fjárfestingum hjá Gamma Capital Management árin 2013-2014 og sem sérfræðingur hjá Íslandsbanka árin 2012-2013.

Haukur Guðmundsson er framkvæmdastjóri Hafnargarðs ehf., eiganda Köllunarklettsvegs 1 í Reykjavík, gamla húsnæði Kassagerðar Reykjavíkur.

Kaldalón keypti Hafnargarð, ‏þáverandi dótturfélag Norvik, síðasta sumar fyrir 4 milljarða króna. Hluti af kaupverðinu var greiddur út með útgáfu hlutafjár í Kaldalóni og er Norvik, móðurfélag Byko, nú fimmti stærsti hluthafi fasteignafélagsins með 7,5% hlut.