María Rut Kristinsdóttir.
María Rut Kristinsdóttir.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

María Rut Kristinsdóttir var kjörin nýr formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands á skiptafundi ráðsins í gær. Hún tekur við af Söru Sigurðardóttur.

Fram kemur í tilkynningu að María Rut er oddviti Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta, sem vann meirihluta í kosningum til Stúdentaráðs þann 6. og 7. febrúar síðastliðinn. María Rut er Flateyringur og er að ljúka grunnnámi í sálfræði við Háskóla Íslands. Á síðastliðnu starfsári Stúdentaráðs sat María Rut í stjórn Stúdentaráðs auk þess situr hún í Háskólaráði og Jafnréttisnefnd Háskóla Íslands.

Þá segir í tilkynningunni að María telur mikilvægt að á starfsárinu muni Stúdentaráð halda áfram að berjast fyrir samþykkt á frumvarpi um Lánasjóð íslenskra námsmanna sem meðal annars feli í sér styrk til námsmanna. Einnig leggur María áherslu á að nýkjörin Sviðsráð fræðasviðanna fimm fari af stað með krafti og vinni að því að bæta það sem bæta þarf á hverju fræðasviði fyrir sig. Stúdentaráð mun halda áfram að berjast fyrir auknu fjárframlagi til háskólans svo tryggt verði að greitt sé með öllum nemendum háskólans. María leggur áherslu á að Háskóli Íslands verði fjölskylduvænn og góður kostur fyrir alla þá sem hafa áhuga á háskólanámi.