María Rún Hafliðadóttir hefur verið ráðin mannauðsstjóri hjá veitingafyrirtækinu FoodCo hf., sem eins og Viðskiptablaðið sagði frá á dögunum , sameinast nú Gleðipinnum sem reka Hamborgarafabrikkuna og Keiluhöllina, en FoodCo rekur m.a. Saffran og Eldsmiðjuna.

María Rún kemur frá Icelandair þar sem hún starfaði í 16 ár, síðast sem forstöðumaður þjónustusviðs og á árunum 2004-2007 sem forstöðumaður þjónustudeildar og þjónustueftirlits. Þar áður starfaði hún sem þjónustu- og gæðastjóri hjá Kaupþingi og sem fræðslustjóri hjá Vodafone. María Rún er með B.S.-gráðu í alþjóðaviðskiptum frá Háskólanum í Wiesbaden í Þýskalandi og M.S.-gráðu í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands.

Félögin sameinast frá áramótum

María Rún mun taka við hlutverki mannauðsstjóra í sameinuðu félagi Gleðipinna frá og með næstu áramótum, en félögin hyggjast Gleðipinnar og FoodCo sameinast, með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins, undir nafni fyrrnefnda félagsins.

Gangi sameiningin eftir munu um 700 manns starfa hjá Gleðipinnum. Eitt af yfirlýstum markmiðum hins sameinaða félags er að skapa framúrskarandi umhverfi fyrir starfsfólk og bjóða því m.a. námsstyrki svo það eigi auðveldara með að stunda nám samhliða vinnu.