María Rut Kristinsdóttir hefur verið ráðin markaðsstjóri GOmobile. María Rut hóf störf á fyrirtækjasviði GOmobile í byrjun árs en hefur síðustu mánuði alfarið séð um markaðsstarf fyrirtækisins og tekur nú formlega við starfi markaðsstjóra fyrirtækisins.

María Rut hefur síðustu ár verið leiðandi í hagsmunabaráttu stúdenta á Íslandi með því að vekja aukna athygli á kjarabaráttu stúdenta. Hún áorkaði ásamt samstarfsfélögum sínum að vinna mál gegn ríkinu vegna breytinga á úthlutunarreglum Lánasjóðs Íslenskra námsmanna. Á háskólaárunum sat María einnig í Háskólaráði, Jafnréttisnefnd Háskólans og gengdi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir skólann.

María hefur einnig verið talsmaður Druslugöngunnar síðustu tvö ár. Hún hefur séð um markaðs- og kynningarmál fyrir gönguna og sinnt verkefnastjórn. María Rut fékk jafnframt í júní 2014 viðurkenningu JCI Íslandi sem Framúrskarandi ungur Íslendingur. Verðlaunin er hvatning og viðurkenning fyrir ungt fólk sem kemur til með að hafa áhrif í framtíðinni

María Rut lauk B.S. gráðu frá Háskóla Íslands í Sálfræði í júní 2013. Hún er trúlofuð Ingileif Friðriksdóttur, blaðamanni á mbl.is og eiga þær soninn Þorgeir Atla, 7 ára.

GOmobile er nýtt fyrirtæki á markaðnum sem hefur sérhæft sig í rafrænu inneignarkerfi í samstarfi við Símann, Vildarkerfi, Valitor, Borgun og Kortaþjónustuna. Kerfið gerir fólki kleift að safna peningum með símanum sínum á sjálfvirkan hátt.