Marín Þórsdóttir hefur verið ráðin deildarstjóri Rauða krossins í Reykjavík og hefur hún nú þegar hafið störf.

Marín er með MBA gráðu frá Háskóla Íslands og MA gráðu í mannfræði frá sama skóla.  Áður starfaði Marín sem rekstrarstjóri Kaffihús Vesturbæjar og þar áður sem sérfræðingur í málefnum hælisleitenda hjá Reykjavíkurborg.

Í tilkynningu segir að Marín sé Rauða krossinum vel kunnug, en á árunum 2006-2014 starfaði hún hjá Rauða krossinum í Reykjavík og sinnti þar ýmsum störfum, svo sem ungmennamálum, innflytjendamálum sem og móttöku kvótaflóttafólks.

„Ég er spennt fyrir komandi verkefnum og það er gott að vera komin aftur til Rauða krossins, þessarar stóru, alþjóðlegu mannúðarhreyfingar sem vinnur ötullega að betri heimi bæði hér heima og erlendis. Ég hlakka til að takast á við verkefnin sem við í Reykjavík erum að sinna og efla þau enn frekar,“ er haft eftir Marín í tilkynningunni.

Rauði krossinn í Reykjavík er stærsta deild Rauða krossins á Íslandi, en þær eru alls 42 talsins.