Marínó G. Njálsson, ein forsprakka Hagsmunsamtaka heimilanna, segir lífshættulega árás á lögmann í gær ekki hafa komið sér á óvart að hún hafi ekki komið eins og þruma úr heiðskýru lofti.

Sem kunnugt er var í gærmorgun ráðist á lögmann á lögmannsstofunni Lagastoð og hann særður lífshættulega eftir hnífstungur. Annars starfsmaður lögmannsstofunnar, Guðni Bergsson fyrrv. landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, yfirbugaði árásarmanninn en særðist sjálfur um leið, þó ekki lífshættulega.

Í pistli á bloggvef sínum segir Marínó að árásin hafi átt sér undanfara.

„Í dag urðu gerendur þolendur og þolandi varð gerandi,“ skrifaði Marínó á vef sinn undir miðnætti í gærkvöldi.

„Ekki ætla ég að afsaka á nokkurn hátt það sem gert var [nafn lögmannsins] í dag. Það var einfaldlega ófyrirgefanlegt, það var óæskilegt og það er skaðlegt fyrir íslenskt samfélag. En það hafði sér undanfara. Þetta kom ekki svona eins og þruma úr heiðskýru lofti. Nei, óveðursskýin höfðu verið að hrúgast upp í mjög, mjög langan tíma. Ögranir fjármálafyrirtækjanna gagnvart lántökum voru að birtast lántökum á hverjum degi

Þá rifjar Marínó upp að í þessari viku séu liðin fjögur ár frá því að krónan hrundi og í kjölfarið rekur hann hvernig fólk og fyrirtæki hafi farið gegnum miklar hækkanir á gengistryggðum lánum.

„Ísland er búið að breytast svo oft á undanförnum 4 árum, að ég er hættur að hafa tölu á því. Nær undantekningarlaust hafa lántakar verið þolendur þeirra breytinga. Þeir voru það líka í dag, þar sem héðan í frá verður hver einasti lántaki talin vera ógn við líf og heilsu gerendanna,“ segir Marínó.

„Margoft er búið að biðja fjármálafyrirtækin og innheimtulögfræðinga þeirra um að sýna skilning, manngæsku og auðmýkt. Því miður hafa þessir aðilar ekki hlustað nægilega vel. Já, Ísland breyttist í dag, en mun sú breyting kalla fram skilning, manngæsku og auðmýkt eða munu fjármálafyrirtækin og innheimtulögfræðingar forherðast. Um það er spurt víða í þjóðfélaginu.“

Þá segist Marínó vonast til þess að samskipti lántaka og kröfuhafa verði „mannlegri, mýkri og hlýrri svo reiðin renni af fólki og það finni fyrir því að það sé í raun og veru viðskiptavinur, en ekki mögulegur bónus í launaumslagið.“