Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku banka, seldi hlutabréf í bankanum í dag fyrir rúmlega 67 milljónir króna. Seldi hann 3,3 milljón hluti á genginu 20,4.

Hlutabréfaverð í Kviku hefur lækkað um tæp 3 prósent í dag, en viðskipti með bréfin námu 320 milljónum króna. Gengið stendur í 19,8 krónum á hlut, nú eftir lokun markaða. Félagið er eitt af tveimur félögum á Aðalmarkaði sem lækkaði á grænum degi Kauphallarinnar í dag.

Gengi bréfa bankans hefur lækkað um fjórðung það sem af er ári og um 28% frá hæsta gengi í nóvember í fyrra.

Sjá einnig: Kvika hagnaðist um 10,7 milljarða

Bankinn hagnaðist um 10,7 milljarða króna á síðasta ári og var arðsemi eigin fjár félagsins 35%. Heildareignir bankans tvöfölduðust yfir árið 2021, en bæði TM og Lykill runnu inn í samstæðuna á árinu.