Seðlabankar eiga að halda verðlagi stöðugu. Ákveði þeir að leggja það markmið tímabundið til hliðar þá er hætt við að trúverðugleikinn glatist. Þetta segir Mario Draghi, bankastjóri evrópska seðlabankans.

Draghi, sem tók við af Jean-Claude Trichet hjá evrópska seðlabankanum um síðustu mánaðamót, sagði í erindi í Frankfurt í Þýskalandi í dag að seðlabankinn vinni á fullu við að leysa skuldakreppuna á evrusvæðinu. Stjórnvöld evruríkjanna verði að leggja meira á sig til að leysa vandann.

Blaðamaður Bloomberg-fréttaveitunnar segir Draghi í raun pirraðan yfir ráðaleysi ráðamanna evruríkjanna gegn vandanum, þeir virðist draga lappirnar, eiga erfitt með að koma sér saman um björgunarsjóð Evrópusambandsins og leggi traust sitt á seðlabankann.

Þá segir Bloomberg ummæli Draghis bera þess merki að seðlabankinn ætli ekki að koma vandræðaríkjum til hjálpar með umfangsmiklum kaupum á skuldabréfum evruríkja sem eru upp að öxlum í skuldavanda. Það, að sögn seðlabankastjórans, sé í andstöðu við markmið seðlabankans.