Maritech, einn af söluaðilum Dynamics NAV, hefur verið útnefnt í Microsoft Dynamics President’s Club fyrir árið 2012, í þriðja sinn í sögu fyrirtækisins.

Tilkynnt var um viðurkenninguna á árlegri ráðstefnu samstarfsaðila Microsoft, sem var að þessu sinni haldin í Toronto í Kanada þann 11. júlí 2012.

Í Microsoft Dynamics President’s Club eru helstu samstarfsaðilar Microsoft Dynamics á heimsvísu (topp 5 prósent). Aðildin er veitt fyrir stöðuga viðleitni til að mæta þörfum viðskiptavina með lausnum og þjónustu sem henta þeim.

„Það er mikill heiður að komast í forsetaklúbbinn. Ég trúi því að lykillinn að árangri og vexti Maritech sé sú áhersla sem lögð hefur verið á viðskiptalausnir, lausnir fyrir sjávarútveginn, og viðskiptagreind, en Maritech hefur hefur lagt mikla vinnu í þróun á þessum sviðum." segir Jón Heiðar Pálsson, sviðsstjóri sölu- og markaðssviðs Maritech í fréttatilkynningu.