Hugbúnaðarhúsið Maritech ehf. hefur breytt nafni sínu í Wise lausnir ehf. en í tilkynningu segir að kennitalan haldist óbreytt og að nafnbreytingin komi ekki til með að hafa áhrif á daglegan rekstur fyrirtækisins.

Þar er haft eftir Hrannari Erlingssyni, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, að með breytingunni sé fyrst og fremst verið að styrkja vörumerkið Wise og samræma markaðsstefnu Wise og kanadísks dótturfyrirtækis þess, Wise Dynamics.

Maritech var stofnað árið 1995. Fyrirtækið sérhæfði sig upphaflega í sjávarútvegi en býður nú upp á viðskiptalausnir fyrir allflestar atvinnugreinar. Í tilkynningunni segir að þegar að nafnbreytingu kom hafi Wise nafnið legið beinast við því það hefur hafi verið notað um árabil á mörgum hugbúnaðarlausnum fyrirtækisins. Má þar m.a. nefna Wise Fish sem hefur verið selt á alþjóðmarkaði á annan áratug og Wise Analyzer greiningartólið.

Í dag er Wise þekkt sem stór söluaðili á Microsoft Dynamics NAV viðskiptahugbúnaðinum á Íslandi. Starfsmenn Wise lausna ehf. eru í dag um 80 talsins. Fyrirtækið rekur tvær starfsstöðvar á Íslandi með 70 starfsmönnum og eina í Halifax í Kanada, þar sem starfsmenn eru 10 talsins.