Eignarhaldsfélagið Maríutása, sem er í eigu Þorvaldar Lúðvíks Sigurjónssonar forstjóra Saga fjárfestingarbanka, skuldar Sparisjóðabankanum rúman milljarð króna. Skuldin er upphaflega tilkomin vegna þess að eignarhaldsfélagið keypti hlutabréf í Sögu Capital árið 2007 fyrir 370 milljónir króna.

Þetta kemur fram í DV í dag. Lánið frá Icebank var í japönskum jenum og svissneskum frönkum. Það stendur samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2008 í rúmum milljarði króna.

Í DV í dag kemur fram að skuldir annars eignarhaldsfélags Þorvaldar Lúðvíks, Cirrus ehf., skuldi tæplega 100 milljónir króna. Félagið heldur meðal annars utan um flugvél og flugskýli á Akureyri. Þá segir að við bætist persónulegar skuldir við nokkrar aðrar bankastofnanir, meðal annars Arion banka, Landsbankann og Sparisjóðinn í Keflavík sem er stærsti lánveitandi Þorvaldar.

Heimildir DV herma að þorvaldur hafi meðal annars átt í viðræðum við Arion banka vegna skuldanna. „Svipaða sögu er að segja um aðrar bankastofnanir en Þorvaldur mun hafa rofið einhver af þeim ákvæðum sem fram koma í lánasamningum hans. Þorvaldur hefur þó náð að komast að samkomulagi við lánadrottna sína þegar slíkt hefur gerst og mun enn standa í skilum samkvæmt því sem DV kemst næst,“ segir í fréttinni.